150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[18:28]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Herra forseti. Við höfum rætt ýmislegt í samgönguáætlun. Í nefndarálitum meiri hluta og minni hluta, nefndarálit minni hluta eru a.m.k. tvö, er búið að vara við ýmsu og að sjálfsögðu líka, eins og sanngjarnt er, að hæla því sem vel er gert. Mig langar að byrja á því að hrósa mönnum fyrir að verið sé að reyna að bæta í á ýmsum stöðum. Á sama tíma er í áliti meiri hlutans reyndar löng upptalning á því hvað megi gera og flýta og bæta við ef rými skapast, þ.e. ef hægt er að fara af stað með viðbótarfjárveitingar.

Við hljótum að velta vöngum yfir því hvort ekki sé orðin breyting á stöðunni í ljósi Covid-19 faraldursins sem hefur geisað og sett tekjur ríkissjóðs í uppnám og við blasir gríðarleg skuldaaukning hjá ríkissjóði. Þá má velta fyrir sér hvort það sé við hæfi að gefa væntingar um flýtingar og viðbætur á 20–30 verkefnum. En maður skilur svo sem að þingmenn sem hafa staðið vaktina, vilji lista upp verkefni sem hefur verið ýtt að þeim að þurfi að flýta.

Ég hef í síðustu tveimur ræðum velt fyrir mér einingunni innan stjórnarmeirihlutans um þessi mál öllsömul. Ljóst er að a.m.k. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki algerlega sammála innbyrðis um áherslur í málinu og kemur það nokkuð á óvart. Þessi flokkur hefur í gegnum tíðina svo sem yfirleitt verið svolítið samheldinn þegar kemur að ýmsum málum. En þarna virðist vera eitthvert rof í því, sem er áhugavert. Ég man eftir tveimur þingmönnum Sjálfstæðisflokks sem hafa talað í þessari umræðu og verður að segjast alveg eins og er að þeir koma svolítið hvor frá sínum kantinum í þessu öllu saman. Annars vegar er það hv. þm. Sigríður Á. Andersen og hins vegar hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir. Ég geri lítið úr skoðunum hvorugs þingmanns en það er mjög óvenjulegt að það sé svona svart og hvítt þegar kemur að Sjálfstæðisflokknum.

Vitanlega er líka mjög undarleg enn ein stefnubreytingin sem orðið hefur hjá Framsóknarflokknum þegar kemur að samgöngumálum. Þær eru orðnar býsna margar. Flokkurinn hefur t.d. kvittað upp á þessa borgarlínu sem hér er til umfjöllunar án þess að blikna í rauninni, þrátt fyrir að hafa talað gegn framkvæmdinni fyrir stuttu síðan. Sá flokkur, sem maður þekkti hér áður, er vitanlega ekki svipur hjá sjón. Hringlandahátturinn er alger þegar kemur að stefnumálum, líkt og er í samgöngumálum. Þarf það ekkert endilega að koma á óvart miðað við hvernig málin hafa þróast þar.

Það er áhugavert að sjá að í ræðu hv. þm. Sigríðar Á. Andersen er framkvæmdaleysið í Reykjavík undanfarin ár mikið gagnrýnt og þarf ekki að undra þar sem fókusinn hefur verið á öðru. Í ræðu sinni segir þingmaðurinn, með leyfi forseta:

„Eins og ég sagði áðan fagna ég því að það séu almenningssamgöngur en mönnum hefur ekki einu sinni tekist skammlaust hér í Reykjavík að reka almenningssamgöngur með venjulegum strætisvögnum. Hringlandaháttur endalaust með leiðarkerfi og tíðni ferða. Það hefur ekkert rekið eða gengið. Menn hafa ekki einu sinni viljað prófa að bjóða upp á ókeypis aðgang í strætó í smátíma til þess að sjá hvort það myndi auka þátttökuna, væntanlega þora menn það ekki í borginni. Það væri kannski reynandi að prófa það fyrst og bæta þær almenningssamgöngur sem hér eru fyrir.“

Að sjálfsögðu er verið að tala um þá aðferð sem borgarstjórnarmeirihlutinn hefur haft í frammi gagnvart einkabílnum. Þess í stað hefur hann lagt ofuráherslu á almenningssamgöngur án þess að þær geti í rauninni fúnkerað. Nú virðist stefnan vera, reyndar með stuðningi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, að fara í enn frekari hringlandahátt, algerlega út í óvissuna, með verkefni sem kostar tugi milljarða. Óvissan er mikil og jafnvel fyrirséð að komist menn niður á einhverja eina leið í því hvað eigi að fara í borgarlínu muni það fara langt fram úr áætlunum, eins og víðast hefur gerst.