150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[18:38]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég ætla að halda aðeins áfram umfjöllun minni um umsögn dr. Haraldar Sigþórssonar umferðarverkfræðings um borgarlínuna. Hér er á ferðinni sérfræðingur sem hefur mikla reynslu í umferðarverkfræði og umferðarmannvirkjum og er vel þess virði að fara yfir það sem hann hefur um málið að segja. Ég hef áður sagt það hér að það er mjög mikilvægt að við hlustum á sérfræðinga í þessum efnum, þá sem best þekkja til í þessum málaflokki.

Haraldur víkur sérstaklega að því að það muni reynast ókleift að fá samþykki íbúa og eigenda fyrir jafn viðamiklum breytingum og skerðingum á verðmæti eigna þeirra vegna þess að verið er að leggja nýjan veg um Reykjavíkurborg, borgarlínu, sem gerir það að verkum að mannvirki þurfa að víkja. Borgarlínan mun liggja nær ýmsum mannvirkjum, þar á meðal húsnæði íbúa, og er þá verið að skerða verðmæti þeirra um leið. Það nægir bara að nefna bílastæði, skert útsýni o.s.frv. Til eru fleiri umsagnir um þetta mál frá íbúum sem lýsa margir hverjir verulegum áhyggjum sínum yfir þessu.

Einnig segir hér að skoða þurfi með reiknilíkönum dreifingu umferðar allra ferðamáta með og án borgarlínu, og einnig hvaða áhrif hún hefði ef markmið svæðisskipulags um auknar hjólreiðar og notkun almenningsvagna nást ekki. Dr. Haraldur spyr: Getur verið að borgarlínan verði gagnslaus, dýr tilraun ef bílaumferð heldur áfram að vaxa, jafnvel til óþurftar? Fáar vísbendingar eru um að ástandið í samgöngumálum hafi breyst svo mikið frá því sem var fyrir kreppu.

Þetta vekur einnig spurningar um að orðið hafa mjög miklar breytingar á samgöngumálum yfir höfuð, eins og um sjálfkeyrandi bifreiðar o.s.frv. Það mun allt breytast mjög hratt. Það er mikil þróun í þeim málaflokki. Þá spyr maður: Er eðlilegt að setja svo mikla fjármuni í verkefni sem bindur ákveðinn samgöngumáta með þessum hætti til framtíðar, þ.e. almenningssamgöngur og strætó?

Síðar segir dr. Haraldur að hugmyndir um kostnað séu mjög af skornum skammti. Nauðsynlegt sé að til sé mun nákvæmari útlistun á kostnaði ásamt valkostum. Ekki sé nóg að benda á framkvæmdaáætlun í þessu sambandi því að það væri eins og að hanna veg og gera fyrst grein fyrir kostnaði við deilihönnun. Uppsetning tillögunnar er víða eins og um sé að ræða bók, segir hann, sem kennir ákveðna gerð skipulags en ekki hugmyndir að raunverulegri tillögu. Ljóst er að svona stórt mál eins og borgarlínan þarf langan tíma til að gerjast og fólk þarf að fá að átta sig á því hvert umfangið er í raun og veru. Enn fremur þarf að gera tillögurnar ítarlega áður en hægt er að ræða þær í alvöru. Það virðist því margt vanta í þessa tillögu að mati umferðarverkfræðingsins dr. Haraldar Sigþórssonar, sem sett hefur fram einar átta athugasemdir við borgarlínuna, sem er mjög fróðlegt að lesa og á að sjálfsögðu að vera innlegg í þessa umræðu.

Ég vil næst koma aðeins að því að hvernig málið hefur verið rætt í borgarstjórn Reykjavíkur. Þar horfi ég til Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðisflokkurinn hefur sérstaklega gagnrýnt fjármögnun þessa verkefnis. Gert er ráð fyrir að fjárfest verði fyrir 120 milljarða kr., ríkið muni leggja fram tæplega 50 milljarða í borgarlínuna, sveitarfélögin 15 milljarða, og svo er sérstök fjármögnun sem lýtur að veggjöldum og sölu á ríkiseignum sem standa á undir 60 milljónum. Samtals er verkefnið 120 milljarðar, eins og við þekkjum. Herra forseti. Ég mun koma nánar inn á þetta í næstu ræðu og bið hann vinsamlegast að setja mig aftur á mælendaskrá.