150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[18:43]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Þegar fjallað er um svo viðamikið mál sem hér um ræðir er að sjálfsögðu nauðsynlegt, eins og í öðrum málum, að ákvarðanir og umfjöllun sé reist á þekkingu. Þegar kemur að fluginu liggur fyrir mjög góð umsögn frá Icelandair Group. Eins og ég hef nefnt í fyrri ræðu er það fyrirtæki í raun og sanni þekkingarfyrirtæki eins og þau gerast best. Þar er mjög mikil þekking og reynsla í flugmálum. Ég hafði tækifæri til að fjalla um í fyrri ræðu það sem kemur fram í umsögn Icelandair Group um mikilvægi uppbyggingar á varaflugvöllum. Félagið ítrekar mikilvægi þess að nauðsynlegri uppbyggingu varaflugvalla verði hraðað. Félagið leggur áherslu á skýra forgangsröðun og að fjármögnun af hálfu hins opinbera sé ekki dreift til uppbyggingar á mörgum flugvöllum heldur verði byggð upp fullnægjandi aðstaða á einum flugvelli sem yrði þá fyrsti varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll. Félagið hefur bent á, eins og þarna kemur fram, að Egilsstaðaflugvöllur sé best fallinn til slíkrar uppbyggingar, m.a. vegna þess að þar er fjalllendi langt í burtu og aðkoman hentug með tilliti til vinds, aðflugs og brottflugs.

Það segir í umsögn félagsins að ekki þurfi að fara í stórtæka uppbyggingu á flugvellinum svo hann verði fullnægjandi varaflugvöllur enda telur félagið einungis nauðsynlegt að bætt verði við akstursbraut við hliðina á flugbrautinni sem hægt væri að nýta sem flugvélastæði þegar á þarf að halda ásamt lagfæringu á þeirri flugbraut sem fyrir er. Félagið lýsir því áliti sínu að ekki þurfi að byggja flughlöð á vellinum til að uppfylla þessar kröfur en bendir á að hér sé um að ræða flugöryggismál. Ég vil árétta það og undirstrika, flugöryggismál. Það segir í álitinu að þörfin fyrir framkvæmdirnar einskorðist við að skapa aðstöðu til að taka við viðunandi fjölda véla í neyðarástandi.

Í framhaldi af þessari umfjöllun leggur Icelandair Group fram þá tillögu, sem lausn á þeim vanda sem kominn er upp, að Isavia muni fjármagna þær framkvæmdir sem nauðsynlegar eru á Egilsstaðaflugvelli. Félagið lýsir því áliti í tilvitnaðri umsögn að tryggt skuli að notendum Keflavíkurflugvallar verði ekki gert að fjármagna aðra flugvelli með tilheyrandi tjóni á samkeppnishæfni íslenskra flugrekenda, enda ljóst að slíkir flugvellir verði ekki reknir með hagnaði. Eðlilegt væri að rekstur flugvallanna yrði fjármagnaður úr ríkissjóði að því marki sem notendagjöld flugvallanna duga ekki til, enda fyrst og fremst um byggðaþróunarlegt verkefni að ræða, eins og komist er að orði.

Þá segir í umsögninni að jafnframt sé mikilvægt að tryggt verði að Reykjavíkurflugvöllur geti áfram þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt þar til samstaða hefur tekist um annan jafn góðan eða betri kost.

Til að draga þetta saman þá er nauðsynlegt að aðgreina uppbyggingu varaflugvallar frá annarri hugsanlegri uppbyggingu á aðstöðu fyrir millilandaflug til og frá Akureyri og Egilsstöðum. Þetta segir félagið vera ótengd verkefni og aðstaðan sem þarf fyrir hvort um sig algerlega aðgreind.

Það eru fleiri mjög áhugaverðir punktar í þessari góðu umsögn sem ég fæ kannski tækifæri til að koma að síðar. Ég bið virðulegan forseta að skrá mig að nýju á mælendaskrá.