150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[19:05]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta síðara andsvar. Ég hef jú tekið eftir því að við í Miðflokknum höfum verið mikið einir í salnum. Þingmaðurinn hefur verið að tala um tafaleik. Þá má segja að aðrir þingmenn hafi verið í tafaleik að hafa ekki tekið þátt í umræðunni til að liðka fyrir málinu. Ég hlýt að setja fram þá skýringu fyrir þingmanninn, af því að hann var að útskýra fyrir mér hvernig ég ætti að sjá hlutina með hans augum. Ég tek ekki meiri þátt í slíkum leik en þetta.

Þingmaðurinn kom inn á að hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefði skrifað undir eitthvað sem hann hygðist svo ekki standa við. Ég man ekki hvernig hann orðaði það, eins og hans væri von og vísa, eða eitthvað slíkt. Mér finnst það aðdróttanir að manni sem er ekki einu sinni staddur í þingsal.

(Forseti (SJS): Jú jú, hann er hér.)

Hann er staddur hér núna en hann var ekki staddur hér áðan. En ég verð nú bara að segja hérna að það er ekki til siðs að gera það á hinn veginn. En ásakanir um tafaleik rek ég aftur til föðurhúsanna. Það hefði kannski liðkað miklu betur fyrir að þingmenn annarra flokka, við höfum kallað eftir því hér í ræðum, kæmu hér og ræddu þessi mál svo að við gætum liðkað fyrir því að samgönguáætlanir yrðu afgreiddar.