150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[19:07]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (ber af sér sakir):

Forseti. Forseti ætti að geta gert sér grein fyrir tilefninu því að hér kom æsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar aftur upp og fullyrti að ég hygðist ekki standa við samkomulag sem formenn flokkanna gerðu og undirrituðu. Þetta er bara alrangt. Ég mun að sjálfsögðu standa við þetta samkomulag eins og öll önnur samkomulög sem ég geri. Fullyrðingar hv. þingmanns um að við séum að koma í veg fyrir samgönguframkvæmdir eru náttúrlega bara broslegar. Eins og ég sagði áðan þá ber það ekki vott um að hv. þingmenn telji gáfnafar hugsanlegra kjósenda sinna mikið ef þeir reyna að halda því fram að þegar við fáum einn aukaþingfundardag okkur til heiðurs sé með því verið að tefja samgönguframkvæmdir í landinu. Ríkisstjórnin situr hins vegar uppi með það að hún er með fjölda ókláraðra mála, eins og gerist oft við þinglok, hefur samt fengið óvenjulangan tíma en mun ekki ná að klára öll sín mál. Það gerist iðulega, herra forseti.