150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

biðlistar og stefna ríkisstjórnarinnar.

[11:13]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni sem kom víða við í fyrirspurn sinni. Ég tek tvennt af því sem hv. þingmaður nefndi, þó að það væri vissulega margt. Það er í fyrsta lagi það sem lýtur að yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um verðtryggingu. Lífskjarasamningarnir eru gerðir til nokkurra ára og ríkisstjórnin gaf út mjög viðamikla yfirlýsingu og er stór hluti hennar kominn til framkvæmda. Það eru hins vegar nokkur atriði sem enn á eftir að ljúka. Eitt af þeim atriðum, sem hefur nú verið lokið, er athugun sem ég lét fara fram á aðferðafræði við útreikning neysluvísitölu, skýrslu þar að lútandi sem unnin var m.a. af heimsþekktum, alþjóðlegum sérfræðingum á sviði vísitölu, því að þeir eru líka til. Þar var farið yfir útreikning neysluvísitölu, sérstaklega hvað varðar húsnæðisliðinn og vísitölubjaga. Niðurstaða þeirrar nefndar, sem skilaði af sér í síðustu viku, er að þessir útreikningar standist allan alþjóðlegan samanburð. Vísað er til Hagstofu Íslands, að hún skoði sérstaklega tímalengdina sem miðað er við í útreikningi á húsnæðisliðnum. Hins vegar er það svo, og við höfum heyrt það í umræðunni, að skoðanir eru töluvert skiptar á því hvort húsnæðisliðurinn eigi heima í vísitölunni eða ekki. Það getur líka verið mjög mismunandi hvernig það kemur út fyrir almenning út frá verðþróun á húsnæðismarkaði. En það hefur sem sagt verið unninn töluverður undirbúningur nú þegar og Alþingi má eiga von á því að fá frumvarp í kjölfarið um verðtryggingarmálefni.

Hv. þingmaður nefndi líka geðheilbrigðismálin, sérstaklega geðheilbrigðismál barna. Ég hef ekki tíma til að fara í það í mínu fyrra svari, en ég mun nýta hið síðara til að fara nánar yfir það.