150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

kjarasamningar lögreglumanna.

[11:24]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Verkfallsrétturinn er einn af grundvallarréttindum launafólks. Þeim rétti er beitt þegar neyðin krefst, þegar samningar milli launafólks og atvinnurekenda þokast ekkert áfram. Því miður virðist það vera svo að verkfallsvopnið bíti frekar á einkaaðila en hið opinbera. Samningar á einkamarkaði eru keyrðir áfram vegna þess fjártjóns sem verkfall veldur á meðan vikur og mánuðir líða án samningafunda hins opinbera við sínar stéttir í kjarabaráttu. Hér á landi brúka stjórnvöld það að hefja ekki samningaviðræður fyrr en mánuðum eftir að kjarasamningar renna út og virðist viðmót stjórnvalda oft og tíðum vera að þreyta fólk til samninga ef marka má orð samninganefnda launafólks sem mæta áhugaleysi og þrástögun á sama tilboði mánuðum saman.

Í gær var verkfalli hjúkrunarfræðinga afstýrt þegar launaliðnum var hreinlega skotið í gerðardóm, sem tekur þannig samningaréttinn af stéttinni aftur. Önnur framlínustétt, lögreglumenn, fær viðlíka móttökur frá stjórnvöldum. Eða nei annars. Þeir fá ekki einu sinni fundarboð í kjarabaráttu sinni enda hafa þeir engan verkfallsrétt. Hann var afnuminn með lögum árið 1986. Lögreglumenn hafa verið samningslausir í á annað ár. Þessi stétt sem sinnir öryggismálum lands og þjóðar, hvort sem er í hefðbundnu árferði eða Covid-ástandi, hefur dregist verulega aftur úr í kjörum sínum undanfarna áratugi og þokast ekkert í samningaviðræðum, ekki neitt.

Ég vil af þessum sökum spyrja hæstv. dómsmálaráðherra: Hvernig stendur á því að stjórnvöld mæta ekki þessari framlínustétt, sem gætir öryggis okkar, af meiri virðingu í viðræðum um kjör hennar? Nú er ekki einu sinni fylgt lögboðinni skyldu til boðunar funda samninganefnda. Er það vegna þess að stéttin getur ekki og má ekki lögum samkvæmt fara í verkfall?