150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[11:52]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Við ræðum enn tvær samgönguáætlanir, til fimm ára og til 15 ára. Ég skila minnihlutaáliti um áætlunina ásamt hv. þm. Bergþóri Ólasyni. Það er aðallega tvennt sem við gerum athugasemdir við. Við erum sammála áætluninni í megindráttum og því aukna framkvæmdafé sem lagt er í samgöngur á næstu misserum og árum en við gerum athugasemdir við framlög til borgarlínu, í þann hluta höfuðborgarsáttmálans sem snýr að henni. Við gerum athugasemdir við að ríki og sveitarfélög hyggist verja tæplega 50 milljörðum á næstu 15 árum til þess verkefnis. Við gerum einnig athugasemdir við útfærslu veggjalda. Við höfum bent á að útfærsla veggjalda er í mikilli þoku miðað við þau þrjú stjórnarþingmál sem liggja frammi á þinginu, samgönguáætlun, samvinnuverkefni og jarðgangaþáttinn. Þar er útfærsla veggjalda útskýrð á þrjá mismunandi vegu og því í mikilli þoku hvað stjórnvöld hyggjast gera með gjaldtöku fyrir vegsamgöngur.

Við gerum athugasemdir við að þetta sé sett fram með þessum hætti, þ.e. í þremur stjórnarmálum sem lögð eru fram á sama tíma með mismunandi útfærslur, í stað þess að lagt sé fram eitt frumvarp svo við getum rætt þþað heildstætt, svo að þetta sé ekki svona brotakennt. Ég hef farið yfir það í fyrri ræðum mínum hvernig þetta er gert. Við teljum að veggjöld eigi ekki að leggja á nema loforð komi frá stjórnvöldum um að ekki verði aukaálögur á bifreiðaeigendur, þá sem aka um vegi landsins. Ef veggjöld verði lögð á verði önnur gjöld á bifreiðaeigendur lækkuð til samræmis, það er framsetning okkar í minnihlutaálitinu.

Varðandi borgarlínu þá höfum við gert athugasemdir við að þar sé verið að verja stórum fjárhæðum úr sameiginlegum sjóðum ríkis og sveitarfélaga í hugmynd sem er illa útfærð. Engin haldbær kostnaðaráætlun er til staðar, þetta byggist á nokkurs konar draumsýn um framtíðina. Við höfum séð þetta gerast áður. Árið 2011 áttu menn sér þann draum að auka hlut almenningssamgangna, sem var 4%, á höfuðborgarsvæðinu. Það átti að auka hann um helming. Eftir að ríkið hefur lagt milljarða í þann samgöngumáta til að efla hann er árangurinn nánast enginn á níu árum. Við viljum ekki taka þátt í að byggja slíka loftkastala og teljum að þetta eigi að rökstyðja betur og reikna betur út. Það þarf að leggja þessar hugmyndir fram með markvissari hætti en verið hefur.

Ég hef vitnað í grein eftir Þórarin Hjaltason umferðarverkfræðing í ræðum mínum en hann heldur því fram að framsetning á borgarlínu sé með þeim hætti að helst megi líkja við áróður. Hann nefnir mörg dæmi um það í grein sinni. Það er ekki boðlegt, herra forseti, að vinna eigi hugmynd, sem kostar svona mikla fjármuni úr vasa almennings, fylgi með áróðursbrögðum. Það er auðvitað alls ekki boðlegt og við í Miðflokknum mótmælum því og krefjumst þess að hugmyndin verði útfærð miklu betur áður en við höldum þessa leið. Og það er ekki eins og að útrýma eigi strætó og láta borgarlínu koma í hans stað. Nei, þetta er viðbótarkerfi sett ofan á almenningsvagnakerfi sem nú þegar er hér í höfuðborginni.