150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[12:34]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Ég ætla í þessari ræðu minni að fjalla um framkvæmdastoppið á höfuðborgarsvæðinu. Eins og íbúar svæðisins og aðrir gestir sem hingað koma vita hefur lítið farið fyrir framkvæmdum til þess að liðka fyrir umferð á höfuðborgarsvæðinu síðastliðin ár og jafnvel áratugi. Hvers vegna skyldi það vera? Vegna þess að það var meðvituð ákvörðun. Það var meðvituð ákvörðun borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík að gera tilraun til þess að auka hlut almenningssamgangna hér á svæðinu og ríkið stökk á þann vagn og lagði verulegt fjármagn í það tilraunaverkefni. Það var gert með átaki árið 2011 þegar ríkið samþykkti að leggja 1 milljarð á ári til að efla almenningssamgöngur.

Kannski var það tilraunarinnar virði á þeim tíma. En í dag, þegar árangurinn liggur fyrir, blasir við öllum sem þetta mál kanna að því fé var sóað, vegna þess að hlutur almenningssamgangna hefur ekki aukist og íbúar á höfuðborgarsvæðinu og aðrir gestir hafa ekki valið þann kost að nýta almenningssamgöngur eitthvað frekar nú en fyrir tíu árum síðan.

Meðan á þessari tilraun stóð gekk í gildi framkvæmdastopp á höfuðborgarsvæðinu. Það átti sem sagt ekki að vinna að öðrum stórum framkvæmdum meðan á þessu stæði. Þetta hafa íbúar höfuðborgarsvæðisins virkilega mátt þola síðastliðin ár með þeim hætti að þeir hafa á hverjum morgni og hvert síðdegi verið stopp á leið til og frá vinnu í löngum bílaröðum meðan þessi tilraun, sem mistókst, fór fram. Ákalli eftir mislægum gatnamótum og breikkun stofnbrauta og lagfæringa á stofnbrautum á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki verið sinnt vegna þess að menn hafa átt með sér þann draum að almenningssamgöngur fengju frekari sess en raunin er á höfuðborgarsvæðinu.

En það er ekki nóg, herra forseti. Nú ætlar draumaverksmiðjan að viðhalda þessum draumi vegna þess að nú er búið að byggja upp hugmyndir um sérstaka línu fyrir almenningssamgöngur, svokallaða borgarlínu, sem enginn veit í raun nákvæmlega hvernig á að framkvæma, hvernig á að fjármagna og hvernig hún kemur til með að nýtast eða hvernig á að reka hana, vegna þess að draumaverksmiðjan framleiðir drauma en ekki raunhæfar áætlanir.

Við í Miðflokknum höfum andmælt slíkum vinnubrögðum og teljum að nú sé nóg komið. Þessi tilraun er komin á enda og við segjum stopp. Við teljum að það framkvæmdastopp sem verið hefur hér á höfuðborgarsvæðinu öllum til ama, líka nágrannasveitarfélögunum, sé óviðunandi. Við teljum að leggja eigi aukið fjármagn, eins og vilji er til meðal flestra nema meiri hlutans í Reykjavík, til að bæta samgöngur á svæðinu, í stað þess að fara í vanhugsaða framkvæmd sem kostar tugi milljarða af skattfé, og óviðunandi að ríkið skyldi yfirleitt láta ginna sig í að leggja fé í þessa borgarlínu, einungis, að því er virðist, herra forseti, til þess að til að greiða lausnargjald til þess að framkvæmdir svæðinu megi hefjast.