150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[12:45]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Takk fyrir forseti. Það hefur borið aðeins við að menn hafi haldið því fram að umræðan sem hér fer fram sé ómarkviss, ónauðsynleg og byggi á nokkurri fákunnáttu. Það vill svo til, herra forseti, að í útvarpsþætti nú í morgun voru staddir tveir hv. þingmenn, hvor úr sínum stjórnmálaflokki, þau hv. þm. Vilhjálmur Árnason og hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson. Þau sögðu eitthvað á þá leið að nauðsynlegt væri að þeir sem ræddu þetta mál sem mest, sem eru þá væntanlega við hv. þingmenn Miðflokksins, ræddu málið af lágmarksþekkingu, og þá var náttúrlega aðallega verið að tala um borgarlínu.

Ég, og örugglega fleiri okkar, hefði gjarnan viljað eiga orðastað við þessa tvo hv. þingmenn, um meint kunnáttuleysi okkar og meint þekkingarleysi okkar í málinu sem hér er verið að ræða. Maður hlýtur að ætlast til þess að fólk sem fer í útvarp og segir þjóðinni slík tíðindi, eins og þau fóru með í morgun, finni orðum sínum stað í umræðu við okkur sem greinilega var átt við, eða vera ómerkingar orða sinna að öðru leyti. Það er mjög ódýrt, herra forseti, að koma fram einhvers staðar þar sem andstæðingurinn er ekki til að svara fyrir sig og segja að hann skorti kunnáttu, að hann sé ekki á réttu róli í umræðunni, að hann sé að draga rangar ályktanir o.s.frv., að niðurstöður séu ekki réttar og þannig. Það er því einlæg ósk mín að þessir tveir ágætu þingmenn, og jafnvel fleiri, komi til umræðunnar og bendi okkur þingmönnum Miðflokksins á það hvar við erum að fara út af sporinu, hvað það er sem við vitum lítið um og leiðrétta okkur þá og uppfræða okkur.

Ef ég man rétt kom einn helsti sérfræðingur Sjálfstæðisflokksins í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu, hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir, í andsvar í blábyrjun þessarar umræðu. Ég hef spurt hana tvisvar, ef ekki oftar, hvað borgarlína sé. Hún svaraði mér á þá leið að borgarlínan fælist m.a. í því að lagðir væru rauðir dreglar um borgina til að greiða fyrir almenningssamgöngum með borgarlínuvögnunum. Það hefði verið gott ef hv. þingmaður, Bryndís Haraldsdóttir, hefði komið til umræðunnar og upplýst okkur frekar vegna þess að mig langar t.d. að vita: Hvar verður rauði dregillinn lagður á Hverfisgötu? Hvar er pláss fyrir auka akrein, rauðan dregil, á Hverfisgötu?

Það hefur komið fram í áætlun að þessari borgarlínu, og er kannski það fyrsta sem maður sér sem hönd er á festandi, að þessum ofurvögnum, sem eru væntanlega á stærð við tvo venjulega strætisvagna, er ætlað að fara um Hverfisgötu, einnig Lækjargötu og Skothúsveg. Ég spyr aftur: Hvar er pláss fyrir rauðan dregil á Skothúsvegi? Á að tvöfalda brúna yfir Tjörnina? Hvað ætla menn að gera? Ætla menn að fara í landvinninga og landfyllingu í Tjörninni til að koma borgarlínunni fyrir? Allt þetta þarf að koma fram, herra forseti. Menn þurfa að svara. Það er ekki nóg að fara annaðhvort í útvarpið eða eitthvert annað og halda því fram að þeir sem ræði þetta mál ræði það af kunnáttuleysi, að þeir viti ekki hvert þeir séu að fara, að þeir séu að draga rangar ályktanir. Það gengur ekki, herra forseti, að slíkur málflutningur sé hafður uppi nema menn finni honum stað. En því miður er ég búinn með tíma minn og bið forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá.