150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fyrirvari í nefndaráliti.

[14:49]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Herra forseti. Við höfum séð það hér í vor að meiri hlutanum gengur illa að ná fólki saman um mál og samstaða næst ekki í nefndum. Þegar svo næst samstaða þá klúðrar meiri hlutinn því með því að fara að ritstýra orðum annarra þingmanna. Ég held að forseti gerði vel í að láta fulltrúa í fjárlaganefnd hafa eintak af Háttvirtum þingmanni þar sem farið er yfir fyrirvara í nefndaráliti. Ef nefndarmaður skrifar undir nefndarálit með fyrirvara er eðlilegt að í álitinu geri hann stuttlega grein fyrir því hvað felst í fyrirvara hans. Í því er pólitík. Í því er efnisleg umræða. Í Háttvirtum þingmanni er meira að segja talað um þrjár mögulegar ástæður fyrir fyrirvörum þingmanna. Þær eru allar pólitískar. Þær eru allar þannig að þó að þingmaður geti brotið odd af oflæti sínu og stutt mál í þágu heildarhagsmunanna þá geti hann haft verulegar efasemdir við ákveðna þætti þess og það á hann að geta sagt. Í því felst málfrelsi hans í þessum sal, að geta sagt skoðun sína í skjölum þingsins og meiri hluti þingsins hefur ekki yfirráðarétt yfir málfrelsi annarra þingmanna. (Gripið fram í: Heyr, heyr. )