150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fyrirvari í nefndaráliti.

[14:53]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegur forseti. Ef þetta væri ekki svona alvarlegt þá mætti horfa á málið með þeim gleraugum að það er auðvitað líka sjúklega fyndið. Við erum nýkomin úr samtalinu um hvort pólitík eigi heima í fræðitímaritunum. Nú er verið að útvíkka það samtal: Pólitík á ekki lengur á Alþingi. Þingmenn þurfa ekki að setja pólitíska fyrirvara og þeir mega ekki ramma inn pólitíska afstöðu sína til ákveðinna mála þótt þeir fylgi meiri hlutanum að málum.

Ég verð að vera sammála hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson; þetta eru auðvitað frumlegt, það verður að segjast. En að sama skapi er þetta auðvitað alvarlegt og ég minni á að skrifaður fyrirvari er ákveðið lögskýringargagn líka, það útskýrir með hvaða hætti þingmaðurinn studdi meiri hlutann, sem var greinilega ekki nægilega sterkur stuðningur að mati meiri hlutans, og í hverju efasemdir hans fólust. Þannig að ég ætla að halda mig við að bæta við orð ágæts hv. þm. Hönnu Katrínar Friðriksson, að þetta er frumlegt en þetta er fyndinn frumleiki.