150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fyrirvari í nefndaráliti.

[14:56]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Mér finnst skipta máli í þessu að hér er auðvitað um að ræða nefndarálit meiri hluta nefndar sem nefndarmenn setja nöfn sín undir. Eðli máls samkvæmt hefur þá í fjölflokka meiri hluta farið fram umræða um það hvað eigi að standa í því nefndaráliti. Hið almenna er að áheyrnarfulltrúi í nefndinni, eins og hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson er í þessu tilfelli, hefur getað tekið undir meirihlutaálit ef hann hefur kosið svo. Ég held að hér séum við komin út á dálítið ókannaðar lendur þar sem þingsköp segja í raun ekki beint fyrir um það hvernig standa eigi að þessum málum. Það er auðvitað svolítið sérstakt ef nefndarmenn eru með á nefndaráliti en í raun með orðum og tillögum sem ganga miklu lengra en þó er verið að gera í nefndarálitinu.