150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fyrirvari í nefndaráliti.

[15:01]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Þetta er sérkennilegt mál. Í fyrirvaranum, sem ekki hlaut náð í nefndinni, er talað um að tillögur gangi ekki nógu langt. Þar kemur líka fram að ég kunni að styðja breytingartillögur sem fram koma. Ég held að það sem meiri hlutinn vill ekki að sé sagt í nefndarálitinu í mínum fyrirvara séu þessar setningar:

Þær breytingar sem hafa verið gerðar frá upphaflegu frumvarpi eru viðurkenning á málflutningi Viðreisnar varðandi aukin framlög til nýsköpunar en þar er bætt við 200 milljónum til Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins vegna svokallaðrar Stuðnings-Kríu. Enn fremur eru tillögur um framlög til Ferðaábyrgðasjóðs vegna pakkaferða. Þar er farin leið sem Viðreisn hefur talað fyrir.

Þarna er ég í raun að hrósa nefndinni fyrir að hlusta á skynsamlegan málflutning sem hún tekur undir en nefndin vill ritstýra þessum setningum út úr fyrirvaranum. Hvaða fíflagangur er þetta?