150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[15:14]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Maður veltir fyrir sér eftir þessa fundarstjórnarumræðu hvort farið verði yfir þær frábæru ræður sem ég hef haldið í þessu máli og þær ritskoðaðar eftir á. Ég veit ekki hvert nýja viðmiðið er eftir þetta allt saman, en við látum á það reyna.

Mig langar í þessari umferð að ræða aðeins grein sem er í Morgunblaðinu í morgun eftir oddvita Sjálfstæðismanna í borgarstjórn, Eyþór Arnalds. Hún ber heitið Óvissuferð. Ég held að þetta orð, óvissuferð, sé í hugum margra merki um að eitthvað skemmtilegt sé í vændum. Margir fara í óvissuferð af því að þeir vita að eitthvað skemmtilegt gerist í henni, en sú óvissuferð sem borgarfulltrúinn bendir hér á, oddviti Sjálfstæðismanna, er allt annars konar óvissuferð. Þetta er óvissuferð vegna þess að óvissan er í rauninni alger. Það er í sjálfu sér enginn sem er búinn að skipuleggja viðburðinn á endanum. Enginn hefur skipulagt hvað taki við þegar á enda er komið í ferðinni.

Óvissuferðin er vitanlega um borgarlínu og um það er oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavíkurborg að skrifa. Hann er á svipuðum nótum og hv. þm. Sigríður Á. Andersen í ræðu í þinginu þar sem hún varaði við þeim mikla kostnaði sem fylgir framkvæmdinni. Borgarfulltrúinn fer réttilega yfir það að borgin hafi setið eftir þegar kemur að stórum framkvæmdum innan borgarmarkanna. Hins vegar bendir hann réttilega á að það var val Reykjavíkurborgar, meiri hluta borgarstjórnar, að sitja eftir og nota fjármuni í að efla almenningssamgöngur, eins og það var kallað, án þess að tækist að efla þær. Milljarðar eru farnir í þá framkvæmd, að því er virðist eingöngu til þess að niðurgreiða hlut sveitarfélaganna í rekstri Strætós. Það er ekki góð fjárfesting fyrir ríkið. Það er ekki góð fjárfesting heldur í almenningssamgöngum til lengri tíma litið þegar ekki hefur tekist að uppfylla þau markmið sem stefnt var að.

Mig langar að grípa niður í grein borgarfulltrúans, með leyfi forseta:

„Borgin hefur afþakkað framkvæmdafé. Sjálfskipað framkvæmdastopp var formfest í svonefndu 10 ára tilraunaverkefni um þar sem mikilvægar framkvæmdir voru settar á ís hefur búið til samgönguvanda. Þar átti að tvöfalda hlutdeild almenningssamgangna en það hefur algerlega brugðist. Algert vanmat á þörf á lausnum hefur búið til þéttar umferðarsultur líkt og í stórborg.“

Þetta segir oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavíkurborg, umferðarsultur. Þetta er að sjálfsögðu það sem við þekkjum sem erum á ferðinni í umferðinni, að bíða og bíða, löng stopp, umferðin mjakast áfram vegna þess að það er ekki pláss. Ekki hefur verið gert ráð fyrir því að bílum og íbúum fjölgi, að þeim fjölgi sem kjósa að nota bílinn sem ferðamáta.

Oddviti Sjálfstæðismanna bendir líka á annað í grein sinni. Hann bendir á að borgin hafi ákveðnar skyldur samkvæmt því samkomulagi sem á að gera um svokallaða borgarlínu, með leyfi forseta:

„Hún á að skipuleggja Keldnalandið. Það hefur ekki verið gert. Hún á að flýta fyrir Sundabraut. Það hefur heldur betur ekki verið gert. Henni ber að flýta fyrir skipulagi fyrir gatnamót við Bústaðaveg og Arnarnesveg. Það hefur tafist og flækst hjá borginni.“

Hæstv. forseti. Nú vona ég þingmenn hlusti og líka þeir sem ritstýra. „Það er erfitt fyrir ríkið að treysta viðsemjanda sem stendur ekki við sitt.“

Borgarfulltrúinn er að benda á það að Reykjavíkurborg hefur ekki staðið við sitt gagnvart ríkinu. Svo er ætlast til þess að við alþingismenn samþykkjum svokallaða borgarlínu, eins og hv. þm. Sigríður Á. Andersen kallar það, sem er algerlega óútfært fyrirbæri að því er virðist, líka samkvæmt þingmanninum. Við eigum núna að fara að samþykkja samkomulag um þá framkvæmd án þess að fyrir liggi nokkur endastöð í óvissuferðinni sem oddviti Sjálfstæðismanna talar um.

Þetta er sannkölluð óvissuferð. Það er ekki einu sinni vitað, virðulegur forseti, hvar upphafsstaður ferðarinnar er, hvað þá endinn. Það er ekki vitað. Hvað mun gerast á leiðinni, hvar verður stoppað? Það er ekki klárt. Það er ekki einu sinni klárt að því er virðist — nú segi ég að því er virðist — hvers konar farartæki verður notað því að nú eru helstu talsmenn borgarlínu farnir að tala um að einnig þurfi að byggja upp hraðlestir. Það er ekki gott að henda reiður á þessari óvissuferð.