150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[15:53]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Í síðustu ræðu var ég í söguupprifjun og var kominn að borgarlínumálunum. Í úthverfum er víða hægt að koma borgarlínu við. Miðsvæðis gæti þurft að grípa til aðgerða eins og að leggja Miklubraut í stokk en tíminn sem fer í það hefur ekki verið reiknaður út, þaðan af síður hvaða óværa gýs upp þegar byrjað verður að grafa á því svæði. Sennilega mun fjölga í starfsstétt meindýraeyða enda alþekkt að rottur séu í holræsum í Hlíðum og Þingholtum. Á framkvæmdatímanum þar sem unnið verður við þröngar aðstæður mun tilvera þúsunda manna sem búa á svæðinu breytast. Framkvæmdum fylgir mikið ónæði, umferð vinnutækja og mengun. Það hefur mikil áhrif á heilsu og lífsgæði þeirra sem miðsvæðis búa. Reykjavík er á norðurhjara, nánar tiltekið á 64°. Útópía um borgarlínu á ekki við hér. Íslenskir vetur hafa verið bærilegir undanfarin ár í höfuðborginni en slæm ár geta komið. Við þekkjum það.

Nágrannasveitarfélög Reykjavíkur hafa lýst yfir stuðningi við borgarlínu. Sú framkvæmd verður sjálfsagt flókin í Kópavogi, allir þekkja jú skipulag gatna þar. Kópavogsbúar hljóta að koma með eitthvert stórkostlegt útspil um útfærsluna. Garðabær er eðlilega fylgjandi línunni sem mun fara þar í gegn án teljandi áhrifa á bæinn. Garðbæingar munu því njóta mikils ávinnings ef svo ólíklega fer að þetta verði gert og má því segja að mesta íhaldsbæli landsins, helsta vígi Sjálfstæðisflokksins, hagnist mikið á því að fá legg í gegnum bæinn og aðrir landsmenn borga að sjálfsögðu fyrir. En hvað um Hafnarfjörð? Öllum er ljóst að umferð þar er of mikil og það þarf að leysa. En lausnin er ekki borgarlína. Þar þarf að stýra ljósum betur og hugsanlega tvöfalda vegi, enda er stór hluti umferðar í gegnum Hafnarfjörð bílar af Suðurnesjunum. Mosfellsbær er sérstakt tilfelli. Hugmyndir eru um að borgarlínan liggi í gegnum Blikastaðaland. Það er 90 hektarar og í eigu félags sem heitir Landey. Landey er í eigu Stefnis, eins af sjóðum Arion banka. Það má því segja að Arion banki hafi mikla hagsmuni af borgarlínu. Landið er hátt verðmetið í bókum félagsins og eru þeir hagsmunir að byggja þétt og mikið nálægt borgarlínu og auka þannig virði landsins. Það er hægt á meðan sveitarfélögin hér viðhalda skorti á húsnæði. Borgarlínuverkefnið er því komið með sterkan bandamann sem Arion banki er óbeint. Seltjarnarnes þarf auðvitað að nefna líka. Þar eru hins vegar góðar leiðir með strætó sem virka ágætlega.

Við eigum að sjálfsögðu að horfa til orkuskipta og tækni framtíðarinnar. Bílar í framtíðinni verða örugglega knúnir vistvænum orkugjöfum. Þeir munu verða tæknivæddir, kannski sjálfkeyrandi og umferðarstýring mun batna. Covid-19 hefur breytt heimsmyndinni og um það deilir enginn og nú sér fólk þann möguleika að hægt er að vinna heima sem þýðir færri ferðir. Mun það hafa áhrif á almenningssamgöngur? Vafalaust. Við erum á rangri braut af ótal ástæðum. Á meðan ekki liggur fyrir niðurstaða um endanlega útfærslu og kostnað er óábyrgt að fara í slíkt verkefni. Við verðum líka að taka inn í afleiddan kostnað sem mun falla til. Það er kostnaður eins og lífsgæðaskerðing þeirra sem búa nálægt framkvæmdasvæðinu, kostnaður skattborgara og fórnarkostnaður við að bruðla í vitleysu í staðinn fyrir að verja fé skynsamlega. Eins og hefur komið hér margoft fram þá er það einhvern veginn alveg á hreinu að borgarlínuverkefnið er algjörlega óútfært og í raun og veru veit enginn út í hvað verið er að fara. En þetta hefur komist inn í þetta (Forseti hringir.) samkomulag og erfitt er að skilja það.

Hæstv. forseti. Ég óska eftir að verða settur aftur á mælendaskrá.