150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[15:58]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla að taka restina af flugkaflanum þar sem talað er um upplýsingatækni í flugi. Við urðum mjög svo vör við nauðsyn fjarskiptabúnaðar á Akureyri þegar loksins var settur upp ILS-búnaður sem var talinn gerbreyta stöðunni þar vegna millilandaflugsins. Það er auðvitað mjög gott að hafa hann en það er einnig mikið ákall um að fá svokallaðan EGNOS búnað, eða sambærilegan búnað, í gagnið og mér skilst að þegar séu hafnar einhvers konar viðræður um það. Í samgönguáætlun er einnig talað um flugöryggisáætlun og forgangsröðun á flugvallarframkvæmdum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Það sem einkum hefur ráðið forgangsröðun flugvallaframkvæmda er mikilvægi þess að tryggja að flugvellir uppfylli öryggiskröfur og staðla sem um þá gilda. Forgangsröðun snýst um að uppfylla öryggiskröfur á flugvöllum, m.a. viðbrögð við frávikum, og er eftirfarandi: Gáttir til útlanda. Aðrir áætlunarflugvellir í grunnneti vegna almenningssamgangna. Lendingarstaðir vegna sjúkraflugs. Lendingarstaðir vegna flugöryggis í almannaflugi og kennsluflugi.“

Þetta er tekið til og er býsna gott. Ég horfi auðvitað hvað mest til lendingarstaða vegna sjúkraflugs miðað við það sem ég fór með hér áðan í sambandi við skosku leiðina og aðgang að heilbrigðisþjónustu. Þetta er því býsna gott. Eins og ég segi er mjög margt gott í þessari samgönguáætlun. Til að taka saman þann punkt að skoska leiðin virðist miða að því að fólk geti sótt þjónustu til höfuðborgarsvæðisins, og ég er ósátt við, hnaut ég um kafla á bls. 43, í um það bil miðju frumvarpinu, þar sem fjallað er um markmið um jákvæða byggðaþróun. Höfum skosku leiðina í huga þegar ég les þetta, með leyfi forseta:

„Markmið samgönguáætlunar um jákvæða byggðaþróun felst fyrst og fremst í að bæta búsetugæði, þ.e. að samgöngur séu eins greiðar, áreiðanlegar, hagkvæmar og öruggar og kostur er, með sérstakri áherslu á skilgreinda landshluta og byggðakjarna innan þeirra. Jafnframt verði unnið að því að samþætta samgöngukerfið á landinu öllu með það að markmiði að þjóna íbúum og atvinnulífi með skilvirkum hætti. Áhersla er lögð á samþættingu samgönguáætlunar við aðrar áætlanir, þ.m.t. byggðaáætlun, í þeim tilgangi að efla vinnu- og skólasóknarsvæði og auka áreiðanleika enda mikilvægara að fólk komist leiðar sinnar flesta daga ársins fremur en að einblína á styttri ferðatíma. Einnig er hér horft til markmiða í landsskipulagsstefnu fyrir árin 2018–2029.“

Þannig að það á að líta á landið sem eina heild og efla einstök svæði. Þess vegna er dálítið merkilegt að hampa því á einum stað í áætluninni að við viljum færa fólk til höfuðborgarsvæðisins til að það geti fengið þjónustu með hröðum hætti, á sama tíma og því er haldið fram að við eigum ekki endilega að horfa á þennan hraða. Grunnþjónusta í heimabyggð hlýtur að vera (Forseti hringir.) forsenda byggðar um landið allt.