150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[16:14]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Mig langar í þessari ræðu minni að koma inn á mál sem snúa að samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins í heild sinni. Eins og margoft hefur komið fram er margt í þeim samgöngusáttmála þeirrar gerðar að raunverulegur pólitískur vilji hefur staðið til þess að koma þeim verkefnum áfram árum og kjörtímabilum saman, en það hefur gengið afskaplega illa. Þetta eru þau atriði sem snúa að því nútímavæða ljósastýringu á stofnbrautum og á gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins sem talið er að geti minnkað stopptíma bifreiða á götum borgarinnar um 30–40%, ef vel tekst til. Það er auðvitað gríðarlegur árangur og alveg ótrúlegt að það atriði eitt og sér hafi ekki verið innleitt fyrir löngu. Út frá umhverfissjónarmiðum myndi eldsneytisnotkun minnka mikið og verulega myndi draga úr pirringi ökumanna vegna þess að tími sparast og hægt væri að ná stórkostlegum árangri með þessari einföldu aðgerð. Göngu- og hjólastígar eru sérliður þarna, sem litlar athugasemdir eru gerðar við á núverandi stigi, og svo hafa stofnbrautirnar verið í gíslingu kjörtímabilum saman.

Vegagerðin hefur viljað komast áfram með mikilvægar stofnbrautaraðgerðir lengi. Í þessari umræðu hefur mikið verið fjallað um gatnamót Bústaðavegar og Reykjanesbrautar, svo að dæmi sé tekið. Sem betur fer flaut það upp í umræðunni, sennilega fyrir tilviljun, að Reykjavíkurborg sjái ekki fyrir sér að hleypa mislægum gatnamótum inn á það svæði í tengslum við höfuðborgarsáttmálann. Það undirstrikar kannski það sem mig langaði að koma inn á í þessari ræðu: Er höfuðborginni, Reykjavíkurborg, treystandi í skipulagsmálum samgöngusáttmálans? Því miður hræða sporin í þeim efnum.

Það eru a.m.k. 15 ár síðan stjórnvöld töldu styttast í að hægt yrði að komast af stað með framkvæmdir við svokallaða Sundabraut. Við þekkjum öll þá þrautagöngu sem það verkefni hefur verið í og alla þá steina sem borgaryfirvöld hafa lagt í götu þess verkefnis. Það hefur verið þvælst fyrir því á öllum stigum málsins. Sundabraut er annað mál þar sem skipulagsvaldinu er beitt með þeim hætti að það getur ekki annað en vakið ugg þegar verið er að ramma inn a.m.k. 120 milljarða framkvæmdapakka eins og verið er að gera í þessum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins — og það á síðan eftir að fara langt fram úr áætlun eins og venjan er í tengslum við verkefni hér á höfuðborgarsvæðinu, hvort sem það eru lagfæringar á bragga sem kosta 500 milljónir, eða önnur verkefni þar sem Reykjavíkurborg virðist hafa lag á því að þvælast þannig fram fyrir skipulagslega að framkvæmdir verða erfiðari og dýrari en þörf er á.

Aftur að mislægu gatnamótunum. Lengi hefur verið talað um að koma þurfi mislægum samgönguás í gegnum borgina þannig að umferð geti verið í frjálsu flæði. Það mun stytta stopptíma bifreiða verulega, það mun draga verulega úr eldsneytisnotkun og það mun draga úr mengun og útblæstri frá bifreiðum verulega.

Þegar þetta allt er skoðað heildstætt, og síðan horft á samskipti Reykjavíkurborgar við nágrannasveitarfélögin, sem eru hluti af þessum samgöngusáttmála, bendir allt til þess að við verðum hér með mjög snúna stöðu um fyrirsjáanlega framtíð á grundvelli þessa samkomulags. Nefna má trakteringarnar sem Seltirningar hafa orðið fyrir nýlega, og eflaust er það fleira sem hægt væri að tína til. Ég nefni líka ákvörðun höfuðborgarinnar um að hafa stoppistöð strætó úti á miðri Geirsgötu til að hindra flæði út á Seltjarnarnes; gangbrautarljósin, sex talsins, sem koma á upp á Eiðsgranda sem verða örugglega stillt þannig að enginn kemst þar í gegn öðruvísi en með því að stoppa á a.m.k. þremur þeirra, nema þá fuglinn fljúgandi og ég nefni að auki lækkaðan umferðarhraða á Hringbrautinni. Þetta eru allt saman mál sem voru keyrð í gegn af borgaryfirvöldum í andstöðu við nágranna sína á Seltjarnarnesi og síðan er það þyngra en tárum taki að fara í gegnum allar þær þrengingar sem stórfé hefur verið eytt í á undanförnum árum innan höfuðborgarinnar. Allt gengur þetta út á það sama, að þrengja að og tefja fyrir umferð einkabílsins eins mikið og menn geta.