150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[16:19]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Hæstv. forseti. Þegar frá var horfið var ég að ljúka umræðu um veggjöld og hugmyndir stjórnvalda um að leggja ný gjöld á almenning til viðbótar við þá gjaldtöku sem fyrir er í samgöngumálum. Ég hafði hugsað mér að snúa mér næst að umræðu um minnihlutaálit og meirihlutaálit samgöngunefndar við þetta mál, þ.e. álitin sem lögð voru fram milli fyrri og síðari umr., því að þar birtist ýmislegt áhugavert og m.a. birtist, held ég, í öllum þessum álitum eitt og annað gott sem náðist í gegn í hv. umhverfis- og samgöngunefnd undir tryggri forystu hv. þm. Bergþórs Ólasonar. En á þessu eru hins vegar enn þá miklir gallar og ég verð að víkja aftur að einu atriði sem ég hef drepið á áður, því að í millitíðinni hefur átt sér stað umræða hér, reyndar ekki frá stjórnarliðum í þessum sal en úti í bæ, og það er svokölluð borgarlína.

Í útvarpsþætti í gærmorgun eða morgun nefndu tveir hv. þingmenn, hv. þm. Vilhjálmur Árnason og hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson, borgarlínuna og umræðu um hana hér. Þau höfðu orð á því að þingmenn Miðflokksins eða þeir sem væru ræða þetta mál hvað mest þyrftu að kynna sér málið, þyrftu að tala út frá þekkingu, held ég að orðalagið hafi verið. Þetta vakti undrun mína að heyra því að við höfum að svo miklu leyti sem við höfum yfir höfuð rætt borgarlínu einmitt vísað í staðreyndir málsins eins og þær liggja fyrir, að því marki sem þær eru fyrirliggjandi. En þessu hefur ekki verið svarað hér í þinginu. Þessu hefur ekki verið svarað af talsmönnum málsins, hvort sem það eru fulltrúar meiri hlutans sem keyra þetta mál áfram eða fulltrúar minni hlutans á Alþingi sem keyra málið áfram af enn meira kappi en meiri hlutinn, enda er þetta mál fyrst og fremst rekið af borgarstjórnarmeirihlutanum í Reykjavík og þeim flokkum sem hann skipa.

Í ljósi þess að það sem ég hef sagt um þetta mál virðist ekki hafa komist til skila og jafnvel valdið einhverjum misskilningi, eins og heyra mátti í þessu viðtali, held ég að ég þurfi að koma inn á þetta borgarlínumál aftur og reyna að gera það á aðgengilegan hátt fyrir þessa hv. þingmenn svo þeir geti vonandi komið og andmælt einhverju sem ég hef að segja um þetta, telji þeir ástæðu til þess, eða bætt einhverju við. Hugsanlega er þetta afleiðing þess að við ræddum þetta mál að miklu leyti um miðja nótt eins og er nú orðinn siður hjá hæstv. forseta Alþingis, reyndar ekki þeim sem nú situr, að reyna að fela umræður og ábendingar Miðflokksins að næturlagi. En þá þarf ég væntanlega að koma aðeins inn á þetta aftur en reyni að gera það með samantekt, með því að þjappa þessu saman. Vonandi fæ ég þá einhver viðbrögð frá talsmönnum málsins.

Í grunninn eru áformin um borgarlínuna áform um að ríkið greiði tugi milljarða, leggi á nýja skatta, ný gjöld, á almenning, og selji frá sér eina af verðmætustu eignum ríkisins, Keldnalandið, og jafnvel Íslandsbanka eins og nefnt hefur verið, geri allt þetta til að fjármagna það að þrengt verði enn frekar að umferð á höfuðborgarsvæðinu með því að taka tvær akreinar af mikilvægustu samgönguæðum svæðisins og koma þar með á algeru stoppi í samgöngum hér væntanlega stóran hluta dagsins. Þetta eiga menn að borga fyrir sérstaklega. Vegfarendur á fjölskyldubílum eiga að borga aukalega fyrir að vera settir í þá stöðu að sitja fastir enn lengur en nú er, þegar til staðar eru miklu betri lausnir og hagkvæmari.

Forseti. Nú fer ég að trúa Einstein með það að tíminn sé afstæður. Getur verið að fimm mínútur séu liðnar? Ég var bara rétt að byrja á samantekt minni um borgarlínu (Forseti hringir.) og bið því hæstv. forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.