150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[16:30]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég hef í fyrri ræðum mínum um samgönguáætlun, sérstaklega þegar ég hef rætt um borgarlínu, eitt af viðamestu og kostnaðarsömustu framkvæmdaliðunum í samgönguáætlun, horft til sérfræðinga í skipulagsmálum og umferðarmálum þegar kemur að því að segja álit sitt á þeirri fyrirhuguðu framkvæmd. Einn okkar helsti skipulagsfræðingur, Trausti Valsson, og Þórarinn Hjaltason umferðarverkfræðingur hafa tjáð sig um þetta mál og ég tel það einfaldlega vera skyldu okkar að hlusta á sérfræðinga í þessum efnum. Þeir segja að þessar hugmyndir séu óhagkvæmar og byggðar á veikum grunni og að hér sé verið að fara út í mjög vafasamt samgöngukerfi. Þetta eru stór orð af hálfu þeirra sem best til þekkja í þessum málaflokki. Að menn sem haft hafa það að ævistarfi að fjalla, rannsaka, skrifa greinar og annað slíkt um skipulagsmál og samgöngumannvirki skuli tjá sig með þessum hætti er náttúrlega nokkuð sem við verðum að hlusta á.

Þekkt er varðandi þessa borgarlínu að hún á að greiða fyrir strætisvögnum, þá stórum strætisvögnum. Hér er ekki á ferðinni hraðlest eða léttlest, eins og kallað er, með lestarteinum. Það eru sumir sem halda það, en svo er ekki. Þetta eru strætisvagnar. Þeir hafa sérstaka akrein, væntanlega þá betri, og séstakar biðstöðvar. Trausti og Þórarinn segja að taka þurfi tvær akreinar fyrir borgarlínuna og meira þar sem biðstöðvar eru með breiðum brautarpalli, þær verði settar á milli akreina. Taka þarf pláss fyrir það frá viðkomandi og núverandi göturými. Hér eru það sérfræðingar sem leggja enn og aftur orð í belg. Þeir segja að fækka þyrfti bílaakreinum á Hringbraut og vestur í bæ niður í eina í hvora átt.

Hér sjáum við náttúrlega hvað er að gerast. Verið er að leggja í gríðarlega dýrt samgöngumannvirki fyrir tugi milljarða sem ríkissjóður, almenningur í landinu öllu, þarf að standa straum af. Fækka á akreinum við Hringbraut og vestur í bæ niður í eina í hvora átt. Það er markvisst verið að ýta einkabifreiðinni út. Það þýðir þá að það verða enn þá meiri tafir hjá þeim sem eru á einkabifreiðum.

Þó að borgarstjóri vilji ekki viðurkenna það þá er verið að þvinga fólk til að nýta sér strætisvagna. Mér hugnast ekki sú stefnumörkun, herra forseti. Reykjavíkurborg og skipulagsmálin hérna eru hönnuð með þeim hætti að fólk sé á einkabifreiðum og framtíðin er líka allt önnur. Framtíðin er sjálfkeyrandi bifreiðar, eins og bent hefur verið á. Er það þá skynsamlegt að fara að ráðast í svona dýrt samgöngumannvirki sem felur í sér almenningssamgöngur, þegar handan við hornið er ein sú mesta tæknibylting sem um getur í þessum efnum? Þá á ég sérstaklega við sjálfkeyrandi bíla. Jú, hugsanlega verður niðurstaðan sú að byrjað verði á þessari borgarlínu en á endanum munu menn sjá hvað verkefnið er vanhugsað. Og síðan koma tækninýjungar inn í þetta allt saman. Þannig að ég held að menn verði bara að vera skynsamir og setjast yfir þetta verkefni af fullri alvöru og hlusta á þá sérfræðinga sem best til þekkja, sem ég hef nefnt hér. Og það eru fleiri til sem segja að hér sé verið að fara út í mjög vafasamt samgöngumannvirki. Ég sit í fjárlaganefnd þar sem maður þarf að hugsa um hverja krónu fyrir hönd ríkisins, og mér sýnist þetta vera ákaflega óskynsamlegt verkefni, ekki síst núna þegar hallinn á ríkissjóði er kominn í rúma 300 milljarða og við þurfum standa straum af miklum útgjöldum í tengslum við veirufaraldur.