150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[16:46]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Ég var að ræða hér áðan um lausnargjaldið og síðan ræddi ég um umræðuna. Ég velti fyrir mér hvers vegna umræða um borgarlínu hefur verið svona gagnrýnislítil á undanförnum mánuðum og árum. Hvers vegna er umræðan eins gagnrýnislítil og raun ber vitni? Hvers vegna skyldi það vera? Skyldi það vera vegna þess að í borgarstjórnarmeirihlutanum í Reykjavík er fjöldi flokka, þar á meðal flokkar sem eru í ríkisstjórn hér á þingi? Þetta hefur ansi breiðan pólitískan stuðning meðal mjög margra flokka í borgarstjórn sem endurspeglast síðan í samsetningu ríkisstjórnarinnar. Menn hafa veigrað sér við að deila á þetta afkvæmi borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík, skilgetið afkvæmi vinstri meiri hlutans í Reykjavík sem búinn er að ríkja þar í fjöldamörg ár. Hans helsta draumsýn hefur verið að efla almenningssamgöngur. Menn hafa svo sem tekið undir það og við tökum einnig undir það, það væri þess virði að reyna að auka hlut almenningssamgangna. Þess vegna var sett aukið fjármagn í almenningssamgöngur fyrir áratug síðan.

Ég var að ræða um þessa umræðu og var búinn að vitna aðeins í greinar sem birtust í blöðum í morgun. Ég vitnaði í leiðara Morgunblaðsins og leiðarahöfundur segir, þegar hann er ræða um samgönguáætlun og mikilvægi umræðunnar um samgöngumál, með leyfi forseta:

„En samgönguáætlun snýr ekki aðeins að samgöngum á landsbyggðinni, hún fjallar einnig um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu og í henni eru m.a. ákvarðaðir fjármunir til svokallaðrar borgarlínu. Þar kárnar gamanið, því að borgarlína er ólík flestum öðrum samgönguverkefnum að því leyti að litlar líkur eru á að hún muni skila þeim árangri að greiða fyrir umferð og gæti þvert á móti orðið til að þrengja enn frekar að umferðinni í Reykjavík, sem má alls ekki við slíku.“

Annar greinarhöfundur í Morgunblaðinu er prófessor Jónas Elíasson. Hann segir, með leyfi forseta:

„Upphaflega var höfuðtilgangur samgöngubóta að auðvelda fólki umferð á milli staða. Þá var fólk að drukkna í óbrúuðum ám og krókna uppi á fjallvegum. En nú má spyrja hvort sá tími sé liðinn. Borgarlínuframkvæmdir eiga, samkvæmt yfirlýstri stefnu, að neyða fólk upp í strætó með því að leggja sérstakar strætóbrautir og stífla þjóðvegi á höfuðborgarsvæðinu fyrir annarri umferð.“

Síðar talar hann um skipulagsréttinn og vandamálin sem hafa steðjað að á höfuðborgarsvæðinu vegna skipulagsyfirvalda í höfuðborginni sjálfri. Hann stingur upp á því að þetta skipulagsleysi á höfuðborgarsvæðinu í umferðarmálum ætti að kosta það að Alþingi, eins og hann segir, með leyfi forseta, „tæki skipulagsréttinn af viðkomandi sveitarfélagi, en verðlaunaði ekki þessa viðleitni með sérstöku framlagi á samgönguáætlun“.

Oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík, Eyþór Arnalds, segir í grein, einnig í morgun:

„Borgin sjálf hefur ákveðnar skyldur samkvæmt samgöngusáttmálanum. Hún á að skipuleggja Keldnalandið. Það hefur ekki verið gert. Hún á að flýta fyrir Sundabraut. Það hefur heldur betur ekki verið gert. Henni ber að flýta fyrir skipulagi fyrir gatnamót við Bústaðaveg og Arnarnesveg. Það hefur tafist og flækst hjá borginni. Það er erfitt fyrir ríkið að treysta viðsemjanda sem stendur ekki við sitt. Það er leitt að þessi leikur borgarinnar hafi farið í þetta far. Löngu tímabært er að fara í stórátak í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu.“

Lestur þessara greina veitir orðum Jónasar Elíassonar aukið vægi (Forseti hringir.) þegar menn eru komnir í þann hnút sem þessar greinar vitna til um.