150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[16:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum enn samgöngumálin enda stór málaflokkur, miklir fjármunir hafa verið veittir í hann, þó ekki nærri nógu miklir eins og við öll þekkjum sem höfum eitthvað fylgst með samgöngumálum eða notað samgöngur yfirleitt. Um er að ræða mjög takmarkaða fjármuni þó svo að innheimt sé töluvert meira af sköttum af þeim sem nota vegi landsins og eigendum bifreiða en renna til vegamála. Það er sérstök ástæða til að skoða það.

Það er áhyggjuefni þegar við ræðum um mjög takmarkaða fjármuni þegar ríkisvaldið gerir sig mögulega, nú ætla ég að segja mögulega því að umræðum er ekki lokið, sekt um að opna baukinn, opna tékkheftið upp á gátt fyrir verkefni sem eru einhvers staðar í óvissunni eins og borgarfulltrúi, oddviti Sjálfstæðisflokksins, skrifaði í Morgunblaðið í dag. Óvissan er gríðarlega mikil, ekki síst um borgarlínu sem er í samgönguáætlun sem við ræðum akkúrat núna. Við verðum að átta okkur á því, hæstv. forseti, að þegar samgönguáætlun verður samþykkt með þeim texta sem þar er, er vitanlega verið að ramma inn þessa framkvæmd að nokkru leyti.

Það sem ég hef minnst á í ræðum einu sinni eða tvisvar er það sem ég ætla að leyfa mér að kalla óvissu um fjármögnun annarra verkefna. Þegar ríkissjóður gerir samkomulag um að fara í ákveðnar framkvæmdir með borginni eða sveitarfélögum í kring sem snúa að borgarlínu er hann að sjálfsögðu búinn að skuldbinda sig. Ríkissjóður á mjög erfitt með að hlaupa frá slíkri skuldbindingu ef það verður forsendubrestur nema það sé sérstaklega rammað inn og passað upp á. Það er enginn að tala um að hlaupa frá einu eða neinu því að ríkissjóður mun að sjálfsögðu koma að þeim verkefnum sem hann er skuldbundinn til að koma að. En á sama tíma er hann að festa fjármagn sem kann að þurfa að nýta í aðrar framkvæmdir, í önnur verkefni, í þessu stóra og mikla verkefni sem þessi óútskýrða borgarlína virðist vera.

Tölurnar eru nokkuð á reiki nú þegar. Við erum með í okkar gögnum upphæðina 50 milljarðar. Þetta mun kosta 70 milljarða sem samkvæmt grein í Morgunblaðinu í dag og öll óvissan er eftir að sjálfsögðu. Útfærslan er mikið til eftir, ef má orða það þannig, en óvissan er algjör. Við höfum kallað eftir því að fá betri mynd og meiri skýringar á áætlununum, hver sé líkleg endanleg niðurstaða, hver áhættan sé, hvernig áhættunni varðandi framkvæmdina verður skipt. Reksturinn hefur ekki legið fyrir. Það kemur reyndar fram í grein oddvita Sjálfstæðismanna í Reykjavík, Eyþórs Arnalds, í Morgunblaðinu í dag að rekstrarkostnaðurinn liggur ekki fyrir. Þar af leiðandi er þetta mikil óvissa fyrir borgarsjóð og sjóði sveitarfélaganna í kring. Það er ábyrgðarhluti af hálfu meiri hluta þeirra sveitarfélaga sem hafa samþykkt að fara í þetta verkefni að gera ekki skýrari kröfur um að kostnaður liggi fyrir. Maður veltir fyrir sér hvort hreinlega sé ábyrgt að starfa með slíkum hætti, fara út í verkefni sem er jafn stórt, jafn viðamikið og jafn dýrt og líkur eru á að fari fram úr áætlun án þess að slá nokkra varnagla við því. Það er val þessara meiri hluta í sveitarfélögunum og að sjálfsögðu munu þeir þurfa að svara fyrir það í kosningum þegar að því kemur.

Ég hef fyrst og fremst áhyggjur af því að þau brýnu verkefni sem eru á höfuðborgarsvæðinu í samgöngum muni þurfa að sitja eftir vegna þess að hér eru miklir fjármunir settir í þetta verkefni, ég tala nú ekki um landsbyggðina þar sem við erum enn þá með marga vegi sem standa varla undir nafni sem vegir, að takmarkað fjármagn ríkissjóðs muni koma niður á því. Það getur komið niður á verkefnum, hvort sem það eru lagfæringar á vegum, nýlagning vega eða jafnvel jarðgöng, því að ríkissjóður muni ekki geta endalaust skuldsett sig eða fjármagnað sinn hluta í framkvæmdum ef skuldbindingin er orðin of mikil.

Við horfum líka fram á samdráttarskeið núna í efnahagslífinu, atvinnulífinu, sem mun þýða að tekjur ríkissjóðs verða minni en vænst var kannski fyrir ári síðan og við því þarf að sjálfsögðu að bregðast. Þetta er eitt samhangandi verkefni og áhyggjuefni í rauninni líka, borgarlína og hagsmunir og fjárveitingar ríkissjóðs í verkefnið.