150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:07]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Á Facebook-síðu borgarlínu segir að um mikilvægan áfanga í leiðakerfi borgarlínu sé að ræða, þ.e. að gert sé ráð fyrir að leiðin Lækjartorg–Hamraborg, annar tveggja fyrstu leggja borgarlínu, muni liggja frá Lækjartorgi að Háskóla Íslands og þaðan í gegnum Vatnsmýrina að hinni fyrirhuguðu brú frá Fossvogi yfir í Kópavoginn að endastöð við Hamraborg. Það er sem sagt gert ráð fyrir brú yfir Fossvoginn og brúin mun tengja saman Kópavog og Reykjavík og borgarlína og gangandi og hjólandi vegfarendur munu ferðast yfir hana.

Hér er um að ræða 270 m langa brú yfir voginn frá Kársnesi, nánar tiltekið frá norðurenda Bakkabrautar að flugbrautarenda Reykjavíkurflugvallar. Þá kemur einmitt að því sem er áberandi í hönnun þessarar borgarlínu, þ.e. að það eru önnur samgöngumannvirki sem þurfa að víkja. Eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni verður einungis ein akrein fyrir bifreiðar hér vestur í bæ og í báðar áttir og síðan verður sérstök akrein tekin undir borgarlínu. Síðan er það Reykjavíkurflugvöllur og honum er ekki heldur hlíft í þessum efnum. Og varðandi þessa Fossvogsbrú sem ég nefndi, og er fjallað um á áðurnefndri Facebook-síðu, er verið að færa öryggisgirðingu flugvallarins og því er verið að minnka svæðið í kringum flugvöllinn um sem nemur tæpum 4.500 m² eða tæpum hálfum hektara. Þetta er gert til þess að koma fyrir 270 m langri og 15 m breiðri brú sem áætlað er að eigi að kosta 2,5 milljarða kr., hvorki meira né minna, og ekkert liggur fyrir um hvernig það verður fjármagnað. Reyndar hefur verið hálfgert uppnám í kringum þessa brú hvað varðar útboðsmál og annað slíkt, og Isavia hefur varað við að helgunarsvæði aðflugsbúnaðar sé raskað og ekki megi rjúfa hindrunarflöt flugvallarins. Það er alveg ljóst að hér er um aðför að flugvellinum og öryggissjónarmiðum að ræða og það er ekki verið að hugsa um þau. Það er sem sagt gert ráð fyrir að brúin liggi frá flugbrautarenda Reykjavíkurflugvallar vestan Nauthólsvíkur yfir á norðausturhluta Kársnestáar en þar eru 340 m milli bakka. Síðan verða landfyllingar gerðar við brúarendann beggja megin. Við sjáum því, og þekkjum það svo sem, að sífellt er verið að bútasauma Nauthólsvík og Skerjafjörð með nýjum og nýjum landfyllingum og ekkert er rætt um umhverfismat í þeim efnum. En það er nú önnur saga.

Við þekkjum svo þetta nýjasta útspil sem fór allt í háaloft um daginn, og borgarstjórnarmeirihlutinn varð að draga í land með, þ.e. að til stóð að leggja veg í gegnum flugskýli Flugfélagsins Ernis. Við sjáum bara hver vinnubrögðin eru. Það er verið að ganga hér á mikilvæg samgöngumannvirki, verið að skerða notkunarmöguleika Reykjavíkurflugvallar og allt er það í þeim tilgangi að koma þessari borgarlínu áfram sem ekki er búið að samþykkja að ríkissjóður komi að. Fjárveitingavaldið hefur ekki samþykkt að leggja 15 milljarða kr. í þetta verkefni. Engu að síður er haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist og það er alveg greinilegt að það er einbeittur vilji borgarstjórnarmeirihlutans að fara þessa leið þrátt fyrir að ýmsir sérfræðingar, sem við höfum tíundað hér, hafi varað sterklega við því þrátt fyrir að á næstu árum komum við til með að sjá mikla samgöngubyltingu hvað varðar sjálfkeyrandi bíla. Það er því margt sem fara þarf vandlega yfir með þetta mál og er nauðsynlegt að endurskoða hugmyndir um þetta með tilliti til væntanlegrar þróunar, t.d. í sjálfkeyrandi bílum eins og ég nefndi.

Ég sé að tími minn er búinn, herra forseti, og óska ég þess að ég verði settur aftur á mælendaskrá.