150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:13]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Mig langar að ræða aðeins um fjármögnunarmál en þau eru eitt af grundvallaratriðum þess að hægt sé að standa straum af framkvæmdum. Það hefur einmitt verið í miklum reyk hvað varðar borgarlínu en mig langar að grípa ofan í nefndarálit 2. minni hluta þar sem segir:

„Annar minni hluti gerir athugasemdir við að vinna við útfærslu á framtíðarfyrirkomulagi gjaldtöku af umferð sé ekki lengra komin en raunin er og telur að það sé mikilvægt að sú vinna liggi fyrir þegar teknar eru ákvarðanir í samgöngumálum sem tengjast m.a. samvinnuverkefnum (PPP) og svokölluðum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.

Nauðsynlegt er að kveða skýrt á um viðmiðunarfjárhæð veggjalda sem fyrst. Þar verði nánar fjallað um útfærslu afsláttarkjara og leggur minni hlutinn sérstaka áherslu á lækkaðar álögur á bifreiðaeigendur til móts við þau gjöld. Þegar þessi leið er útfærð ber að forðast margfeldisáhrif innheimtu af þeim sem þurfa að fara um mörg veggjaldahlið, t.d. til að sækja þjónustu til höfuðborgarinnar.“

Ég heyrði það einmitt í framsögu hv. þm. Bergþórs Ólasonar, á fyrri stigum þessarar umræðu, að hugmyndin um að taka lán hljómi vel vegna þess að það er mjög hagstætt að taka lán í dag, vextir eru lágir og jafnvel neikvæðir í sumum myntum. Ég tek heils hugar undir að þá leið ætti að skoða betur til að tryggja fjármögnun til að fara í framkvæmdir. Ekki er búið að taka neinar ákvarðanir um hvernig fjármögnunin eigi að verða heldur er farið af stað með hugmyndir um leiðir sem eru ófjármagnaðar og það slær mig mjög illa.

Mig langar aðeins að koma að sama þætti í nefndaráliti meiri hlutans. Þar segir m.a. um þessi samvinnuverkefni, með leyfi forseta:

„Í samvinnuverkefni felst að einkaaðili annast fjármögnun í heild eða að hluta eða tekur á sig með öðrum hætti fjárhagslega áhættu af gerð og rekstri opinbers mannvirkis, með heimild til gjaldtöku fyrir notkun. Samvinnumannvirki verður ríkiseign að samningstímabili loknu. Erlend reynsla og rannsóknir á slíkum framkvæmdum benda til þess að slíkt fyrirkomulag skuli helst haft um nýframkvæmdir sem eru umfangsmiklar en vel skilgreindar.“

Áfram segir:

„Nefndin er meðvituð um að skiptar skoðanir eru í samfélaginu um töku veggjalda en telur hins vegar ljóst að með fjölbreyttari fjármögnun en eingöngu ríkisfé verði kleift að flýta framkvæmdum sem efla atvinnuuppbyggingu, styrkja byggðaþróun og auka hagvöxt, samkeppnishæfni …“

Allar eru þessar hugmyndir góðra gjalda verðar en það verður að segjast eins og er að þetta er ekki fugl í hendi heldur fugl í skógi, og því einkennilegt hve langt þetta mál er komið.

(Forseti hringir.) Hæstv. forseti. Ég óska eftir því að verða settur aftur á mælendaskrá.