150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:18]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég ræddi hér fyrr um það sem snýr að flugi í þessari þingsályktunartillögu frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Mér fannst svolítið slæmt að velja þurfi á milli Akureyrarflugvallar og Egilsstaðaflugvallar með tilliti til þess að efla annan hvorn flugvöllinn til millilandaflugs. Það þarf ekki að breyta nema einu orði, taka út orðið eða og setja orðið og, á milli Akureyrar og Egilsstaða. Þá erum við búin að segja að við ætlum að hafa fleiri gáttir inn til landsins. En þetta snýst líka um það að hafa fleiri gáttir frá landinu. Það er ekkert endilega gefið að fólk eigi alltaf að þurfa að fara í gegnum Keflavíkurflugvöll til að fara til útlanda en samt virðist það einhvern veginn vera þannig að það sé aðalatriðið og hitt eigi að vera svona til vara, varaflugvellir. Og þetta snýst ekki bara um ferðamenn, þetta snýst um öryggi.

Í þessari þingsályktun samgönguráðherra má líka finna mótsagnir. Yfirleitt er fjallað um þjónustu á höfuðborgarsvæðinu sem fólk af landsbyggðinni sæki vegna þess að ekki sé annar kostur. Mér finnst það vera ákveðin uppgjöf og sérstaklega finnst mér það vera uppgjöf þegar því er haldið fram að náið sé unnið með byggðasjónarmið og byggðaþróun í huga og talað um jákvæða byggðaþróun í því sambandi, sem felist fyrst og fremst í því að bæta búsetugæði, þ.e. að samgöngur verði eins greiðar og áreiðanlegar, eins hagkvæmar og öruggar og hægt er með áherslu á sérstaka landshluta og byggðakjarna innan þeirra. Það eru þarna mótsagnir sem mér finnst ekki alveg ríma.

Um þær ræður sem síðast voru fluttar um borgarlínu og hvernig hún muni þrengja að fjölskyldubílnum verð ég að segja: Það er staðreynd að það mun þrengja að bílum og jafnvel líka gangandi og hjólandi umferð. Það er ekki bara bílaumferðin sem geldur þess að við ætlum að setja 50 milljarða í óskilgreinda borgarlínu, og það er bara byrjunarkostnaðurinn, við vitum yfirleitt hvernig það fer. Þegar byrjað er á svokölluðum ohf.-framkvæmdum þá fara þær oft úr böndunum.

Í plagginu er fjallað um Vegagerðina og viðhald og talað um að viðhald á vegum sé það stærsta og kostnaðarsamasta sem ráðist er í hverju sinni. Það er fjallað um, í sambandi við viðhald, að það sé til þess ætlað að varðveita verðmæti vegamannvirkja, uppfylla reglur um vegbreidd og burðarþol og uppfylla kröfur um umferðaröryggi og þegar fjallað er um umferðaröryggi er væntanlega verið að huga að alls lags ferðamátum, hjólandi og gangandi líka. Og til að halda áfram með þetta þá er reiknað með því að kostnaður við að varðveita verðmæti vegamannvirkja aukist á næstu árum. Mér finnst ágætt að hafa þetta í huga þegar við erum að fara að skrifa undir óútfylltan tékka, eins og það heitir. Það er vitað að viðhaldskostnaður við að varðveita verðmæti vegamannvirkja mun aukast.

Þetta er staðreynd sem er skrifuð inn í þessa samgönguáætlun sem lögð er fram af samgönguráðherra og til viðbótar þarf að takast á við viðhald stærri og dýrari mannvirkja í vegakerfinu, svo sem jarðganga og brúa. Þarna er annar hlutur sem verið er að tala um sem kostnaður mun aukast við á komandi árum og samt sem áður erum við virkilega að stilla þessu upp á þann hátt að borgarlína teljist með mikilvægari samgöngubótum. Ég hafna því.