150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:28]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Herra forseti. Við tölum áfram um samgöngumálin. Við höfum velt upp mörgum spurningum sem færri svör hafa komið við en vonandi skýrist þetta þegar líður á. Ég hef mest rætt um það sem kemur fram á bls. 16 og 17 í nefndaráliti meiri hlutans, þ.e. um samgöngusáttmálann. Ég hef nú reyndar komið inn á flugmálin og fleiri mál en stærstu einstöku fjárveitingarnar lúta að hinum svokallaða samgöngusáttmála.

Það væri sjálfsagt töluvert einfaldara að eiga við málið ef skýrar væri kveðið á um hlutverk ríkisins þegar kemur að samgöngusáttmálanum og allri þessari framkvæmd. Ég furða mig svolítið á því hvað þingmenn eru í raun tilbúnir að senda málið frá sér án þess að hafa neglt betur niður hver endanlegur kostnaður ríkisins getur orðið. Sveitarfélögin verða vitanlega að bera ábyrgð á sínum málum. Það er í rauninni mjög óábyrgt og ég furða mig á því að hv. þingmenn skuli ekki benda á niðurstöðutölurnar, hvað það muni kosta ef þeir ætla að samþykkja þetta. Það er óábyrgt að gera það eins og þetta lítur út í dag.

Auðvitað er samgönguáætlun í raun uppleggið fyrir þennan höfuðborgarsamning. Og töluvert er rætt um höfuðborgarsamninginn, og borgarlínu og það bix, í samgönguáætlun og nefndaráliti meiri hlutans. Það sem truflar er að ekki er ljóst hvað ríkið á að greiða. Það kemur meira að segja óbeint fram á bls. 17 í nefndaráliti meiri hlutans hvað þetta er óskýrt allt saman. Meiri hlutinn sér ástæðu til að farið verði sérstaklega yfir verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga þegar kemur að samgönguframkvæmdum í þéttbýli. Það á vitanlega að horfa kostnaðarskiptingu framkvæmda. Ég held að það sé mjög mikilvægt að það liggi fyrir hvernig kostnaðarskiptingin er áður en við leggjum út í svona risaverkefni eins og hér virðist vera um að ræða. Það liggur ekkert fyrir í þessu máli.

Hins vegar eru alls konar æfingar boðaðar til að koma fjármagni inn í verkefnið af hálfu ríkisins; sala eða notkun á landi, bankasala o.s.frv. Allt er þetta ákveðnum fyrirvörum háð, að sjálfsögðu, því að við vitum ekkert hvort við getum selt banka eða hvað fæst fyrir hann. Þetta er svolítið eins og hugsunin „þetta reddast“. Við getum ekki leyft okkur það í því ástandi sem er í dag hvað varðar ríkissjóð. Við erum því miður aftur komin með skuldsettan ríkissjóð. Það á sér skýringar í þessum faraldri og efnahagslægðinni sem var byrjuð áður en hann skall á.

Það er síðan alveg ljóst að tekjuöflun ríkisins mun dragast saman á næstu mánuðum og jafnvel árum. Þar af leiðandi er enn þá óábyrgara að hafa ekki frekari fyrirvara en hér er gert ráð fyrir á mörgu varðandi hlutdeild ríkisins í t.d. þessari borgarlínu. Ég held að það væri hreinlega betra fyrir alla að þetta væri skýrara, bæði fyrir þá sem eru efasemdarmenn um verkefnið og þá sem eru fylgjandi. Ef hægt væri að búa til ramma sem er öruggari en sá sem við erum með í dag væru þeir um leið komnir með betri vopn til að berjast fyrir framkvæmdinni, berjast fyrir verkefninu.

Þó að sá er hér stendur sé ekki hrifinn af verkefninu sem slíku og vilji ógjarnan að menn fari þessa leið verður að segjast eins og er að þegar búið er að girða fyrir hlutina eins og hægt er, t.d. varðandi hlut ríkisins, er vitanlega erfiðara að standa gegn slíkum framkvæmdum. En ég held að það hefði verið betra (Forseti hringir.) að halda áfram að reyna að kenna fólki að nota almenningssamgöngur áður en farið væri í þennan leiðangur.