150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:54]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að sjá að hv. þingmaður fylgist vel með því hversu margar ræður ég held hér á þingi. (KÓP: Það verður maður að gera.) Já, það er einmitt það sem er, þess vegna væri mjög ánægjulegt ef hv. þingmaður tæki þátt í þessari umræðu með okkur. Hann hefur mjög fastmótaðar skoðanir á borgarlínunni og ágæti hennar en hann vill ekki taka þátt í umræðunni. (Gripið fram í.) Mér finnst mjög einkennilegt að hv. þingmaður geti komið hér og gagnrýnt það að við í Miðflokknum flytjum þetta margar ræður og töluðum svona mikið á síðasta þingi o.s.frv. Kjarni málsins er sá að það væri bara best að hv. þingmaður tæki þátt í þessari umræðu og gagnrýndi það sem honum finnst ekki vera rétt hjá okkur. Það væri fullkomlega eðlilegt að hann gerði það. Ég held að ég verði bara að gleðja hv. þingmann með því að mér finnst málið sérstaklega viðamikið núna. Varðandi það hvað ég ræddi á síðasta þingi þá man ég það ekki svo glöggt en get rifjað það upp. Það voru eflaust mörg mikilvæg málefni og einkum sem sneru að Suðurkjördæmi, sem ég hef sérstakan áhuga á og hef farið vandlega yfir og mun halda því áfram.

En það sem snýr sérstaklega að þessu núna og ástæðunni fyrir því að ég skuli tala aðeins lengur og halda fleiri ræður að þessu sinni um samgönguáætlun er einmitt borgarlínuverkefnið, sá mikli kostnaður sem því fylgir og staða ríkissjóðs. Það má ekki gleyma því, hv. þingmaður, að staða ríkissjóðs er gjörbreytt frá því að við ræddum síðustu samgönguáætlun. Þess vegna er fullkomlega eðlilegt, sérstaklega fyrir þingmann eins og mig, sitjandi í fjárlaganefnd, að ég fari í saumana á því hvort þetta verkefni sé nauðsynlegt og skynsamlegt, ekki síst í ljósi mikils kostnaðar og stöðu ríkissjóðs og stöðu efnahagsmála í dag.