150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:56]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Eins og ég útskýrði í síðustu ræðu minni hefði ég gjarnan viljað komast í það að ræða álit nefndarinnar sem birtist milli fyrri og síðari umr. og hyggst fara yfir það eins fljótt og kostur gefst. En í millitíðinni hefur eitt og annað komið upp sem varð til þess að ég taldi nauðsynlegt að víkja aftur að einu tilteknu atriði í samgönguáætlun sem er svokölluð borgarlína. Þingmenn hafa verið að tjá sig utan þessa salar um það mál og mér hefur þótt yfirlýsingar þeirra, bæði stjórnarliða og annarra þingmanna úr stjórnarandstöðu, þ.e. annarra en Miðflokks, benda til að menn hafi ekki fylgst nógu vel með þessari umræðu. Það er e.t.v. vegna þess að hún fór að miklu leyti fram að næturlagi. Því er ég nú að reyna að útskýra í sem stystu og einföldustu máli í hverju vandinn við þessa borgarlínuhugmynd liggur í von um að hér komi einhverjar skýringar frá talsmönnum málsins sem geti létt af okkur þessum áhyggjum eða a.m.k. að færð verði fram rök fyrir því að áhyggjur okkar séu ekki á rökum reistar að mati viðkomandi.

Borgarlínan, þetta gríðarlega dýra verkefni, innviðaverkefni sem er dæmigert fyrir verkefni sem setur sveitarfélög, jafnvel ríki, í vandræði í ár og áratugi fram í tímann, er til þess fallin að þrengja að umferðinni fremur en að losa um þær umferðarteppur sem eru orðnar stórkostlegt vandamál í Reykjavík. Í þetta á að verja gríðarlegu fjármagni en ekki er vitað með hvaða hætti á að afla þessa fjármagns. Það er velt upp hugmyndum um að selja jafnvel Íslandsbanka. Það stendur til að selja Keldnalandið og leggja einhver ný gjöld, einhverja nýja skatta, á vegfarendur á höfuðborgarsvæðinu.

En það er ekki nóg með, ef farið verður í allan þennan fjáraustur, að það skili því að þrengt sé að umferðinni með því að taka eina akrein í hvora átt, tvær akreinar, á helstu samgönguæðum höfuðborgarsvæðisins, heldur kemur líka fram að borgarlínan muni hafa forgang á umferðarljósum. Þegar borgarlínan nálgast þá breytast umferðarljósin og lokað er á aðra umferð til að hleypa borgarlínunni í gegn. Þetta minnir á mikilvæga umræðu sem hefur átt sér stað um ljósastýringu svokallaða, ekki síst í Reykjavík. Oddviti Sjálfstæðismanna hér í bæ, Eyþór Arnalds, skrifar mjög áhugaverða og góða grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann minnir á mikilvægi ljósastýringar og hversu mikil áhrif hún geti haft á það að liðka fyrir umferð, burt séð frá öllum nauðsynlegu framkvæmdunum sem hafa beðið allt of lengi. En bara það að ráðast í snjallljósastýringu geti strax haft mjög umtalsverð áhrif. Þetta er eitthvað sem við í Miðflokknum ræddum töluvert fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar og oddviti okkar, Vigdís Hauksdóttir, lagði mikla áherslu á. Á þessu er mikill skilningur í minni hlutanum í Reykjavík en einhverra hluta vegna skortir hann alveg meðal meiri hlutans. Maður óttast að þetta sé bara enn einn liðurinn í því að þrengja viljandi að umferðinni, þ.e. að taka ekki á þessu tiltölulega auðleysta máli sem er ljósastýringin.

Ef borgarlínunni verður komið á með því fyrirkomulagi sem ég nefndi, að hún hafi sjálfkrafa forgang á umferðarljósum, eru allar hugmyndir um snjallstýringu umferðarljósa til að auka flæðið í borginni farnar út um gluggann því að í hvert skipti sem borgarlínustrætó kemur að gatnamótum þá breytast ljósin og allt kerfið ruglast. Við þekkjum það hvernig teppur á einum gatnamótum dreifa úr sér um allar nærliggjandi götur. Það er ekki nóg með að borgarlínan taki eina akrein í hvora átt af annarri umferð, af umferð fjölskyldubíla, heldur mun hún auk þess gera ljósastýringuna enn verri en hún er nú og koma í veg fyrir mjög skynsamlegar, tiltölulega ódýrar og einfaldar hugmyndir um að bæta umferðarflæði til mikilla muna með því að laga ljósastýringu.