150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[18:01]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég ræddi það hér fyrr í dag hvernig samfélagið virðist hafa vaknað til vitundar um þær samgönguáætlanir sem eru til umræðu og fannst síðasti ræðumaður, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fara ansi vel yfir það sem ég var einmitt að velta fyrir mér þannig að ég ætla aðeins að bíða með það. En ég var að lesa í sæti mínu úr umsögn frá Samgöngufélaginu sem ég var reyndar að vitna í hér í morgun líka og mig langar að fara aðeins út á land, eins og ég hef verið að gera, í sambandi við hugmynd sem hefur ekki verið viðruð töluvert lengi en var rædd hér fyrr nokkru síðan og mér finnst mjög áhugaverð. Það er leið sem kallast Húnavallaleið og Vindheimaleið.

Mig langar aðeins að lesa upp úr umsögninni, með leyfi hæstv. forseta:

„Ekki þykir hjá því komist að vekja enn og aftur athygli á að samkvæmt áætluninni er næstu 15 árin ekki gert ráð fyrir að ráðast megi í svo mikið sem undirbúning [við] svonefnda [Húnavallaleið] í Austur-Húnavatnssýslu og Vindheimaleið í Skagafirði. Um miklar samgöngubætur yrði að ræða, sem mjög er kallað eftir, einkum þá fyrrnefndu, og hefðu mikla þýðingu og jákvæð áhrif fyrir marga og ekki líðandi að sérhagsmunir komi í veg fyrir að almennir vegfarendur komist 20 km skemmri leið en ella væri á nýjum og vel hönnuðum vegum, samtals um 30 km (17 + 12 km) í stað eldri og varasamari vega, samtals um 50 km (30,6 + 18,4 km). Ekki þyrfti að koma til neitt framlag úr ríkissjóði til gerðar vegar um Húnavallaleið. Hana mætti að fullu og öllu fjármagna með veggjöldum, svo arðsöm telst hún.“

Enda yrði þá um að ræða aðra leið sem hægt væri að fara.

„Þótt ekki sé gert ráð fyrir þessum leiðum í skipulagi sveitarfélaganna sem þær lægju um er það Alþingis að móta stefnuna í samgönguáætlun hvar þjóðvegir skulu liggja en ekki einstakra [sveitarfélaga], þótt auðvitað verði eftir föngum að taka tillit til vilja íbúa þar. Skal rifjað upp að sveitarfélögin bera enga fjárhagslega ábyrgð né hafa fæst þeirra nokkrar forsendur, þekkingu eða pólitískt umboð til að meta þörf samfélagsins fyrir gerð vega sem tengja saman heilu landshlutana.“

Þarna er í raun og veru verið að segja, samkvæmt sýn þeirra sem rita umsögnina, að þessi leið hafi ekki verið skoðuð neitt ítarlegar en þetta. Ég hef skilning á því af því að ég þekki vel til annars staðar, eins og í Borgarnesi. Þar var rætt um að taka hjáleið sem var upphaflega ráðgerð þegar brúin yfir Borgarfjörð var byggð sem átti að liggja með ströndinni og upp fyrir bæinn. Svo þegar kom að því í skipulagi hafnaði sveitarfélagið því vegna þess að bærinn hafði jú miklar tekjur af því að umferðin færi þar í gegn, af þjónustu við vegfarendur, og sjálfsagt á það sama við á Blönduósi. Mér finnst þetta mjög áhugaverð pæling og eins og segir í þessum texta, þetta er náttúrlega eitthvað sem á að koma inn á borð Alþingis og vera rætt þar en það kemur líka fram seinna í þessum texta að þetta var til umræðu í kringum 2011 en var þá slegið af.