150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[18:12]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Getur forseti upplýst mig um það númer hvað þessi ræða mín er í þessari umræðu?

(Forseti (HHG): Forseti getur það ekki að svo stöddu.)

Ég ætlaði að ræða allt annað mál í þessari ræðu heldur en svo fer. Mig langaði til að eiga nokkur orð um innkomu hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés áðan þar sem hann taldi ástæðu til að óska hv. þm. Birgi Þórarinssyni sérstaklega til hamingju með að hafa flutt hér 30 ræður. Nú er það svo, herra forseti, að sá sem hér stendur flutti 50 ræður í orkupakkamálinu í fyrra og ég man ekki eftir því að hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé hafi séð ástæðu til að óska mér til hamingju með það og mér sárnar þetta nokkuð.

Eins og allir vita sem hafa gist þennan þingsal þá er hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé mjög ósínkur á góð ráð. Þetta má m.a. sjá meðan hér eru óundirbúnar fyrirspurnir, þá hoppar hann á milli ráðherra á ráðherrabekknum og gefur þeim góð ráð ókeypis. En nú er hv. þingmaður kominn í útrás og nú vill hann líka leiðsegja okkur Miðflokksmönnum. Auðvitað tökum við góðum leiðbeiningum vel en þetta leiðir mig samt að því að í fyrradag kom hv. þingmaður inn nokkuð óðamála og vildi í störfum þingsins leggja okkur Miðflokksmönnum línurnar um það hvernig við ættum að ræða málin í þessari umræðu sem nú stendur yfir. Ég verð að taka það þannig að fyrst hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé sér sig knúinn til að koma inn núna og bjóðast til að aðstoða okkur við ræðuskrif þá höfum við ekki staðið undir væntingum hans. Það er næsta víst að við þurfum að herða okkur eitthvað aðeins í því þannig að við völdum honum ekki frekari vonbrigðum í málflutningi okkar.

Ég verð að taka undir með hv. þm. Birgi Þórarinssyni að auðvitað hefði verið betri bragur á því ef hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé hefði séð sér fært að taka þátt í þessari umræðu með okkur, vera hér með okkur okkur til trausts og halds og hvessa okkur með gagnrýnum spurningum o.s.frv. Hann hefur ekki séð sér fært að gera það og það er miður. En umræðunni er fjarri því lokið þannig að ég hlýt að vona að nú þegar hugsanlega fer að hilla undir seinni hluta umræðunnar þá finni hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé hjá sér löngun og þörf til að koma hér og henda í okkur einhverjum brauðmolum af nægtarborði sínu því að eins og líklega hefur ekki farið fram hjá nokkrum manni sem þennan þingsal hefur gist þá er hv. þingmaður fyrrum blaðamaður og þar að auki lærður sagnfræðingur. Hann hefur örugglega ansi margt að miðla okkur hinum sem búum ekki að sama bakgrunni.

Herra forseti. Ég verð að ítreka þá ósk mína að hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé komi nú til leiks og heiðri okkur öll með nærveru sinni í salnum og taki fullan og óskoraðan þátt í umræðunni sem nú stendur sem hæst. Það myndi örugglega bæta umræðuna og dýpka hana vegna þess að hv. þingmaður hefur jú drjúga þekkingu á málefninu sem hér er til umræðu og er sérstakur áhugamaður um uppbyggingu og rekstur borgarlínu. Það væri mjög fróðlegt að fá útlistun hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés um það hvað borgarlína í raun er, hvernig hún er uppbyggð. Hann gæti kannski leitt okkur af villu okkar vegar ef við erum einhvers staðar villuráfandi. Ég ætla að nota þetta tækifæri til að skora á þennan hv. ágæta þingmann að vera hérna með okkur, koma til liðs við okkur. En þar sem ég þurfti að nota ræðutíma minn í þessa hvatningu til hans verð ég að biðja hæstv. forseta að setja mig aftur á mælendaskrá því ég ætlaði upphaflega að ræða allt annað.