150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[18:17]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég ætla áfram að fara yfir það sem ég kom inn á í síðustu ræðu minni sem var í raun forundran mín gagnvart framsetningu hæstv. samgönguráðherra þegar hann heldur því fram að mál í þeirri áætlun sem nú er rædd séu alfa og omega þess að framkvæmdir komist áfram á Íslandi. Eftir að hafa séð viðtal við hæstv. ráðherra í Víglínunni á Stöð 2 í gær og sjá síðan viðtal við hann sem birtist á mbl.is áðan tók ég mig til og sótti þingsályktunina sem var samþykkt hér fyrir rúmum tólf mánuðum, fimm ára samgönguáætlun, en á sama tíma var samþykkt 15 ára samgönguáætlun sem er í gildi og kallar ekki á endurskoðun samgönguáætlunar fyrr en eftir tvö ár héðan í frá samkvæmt lögum. Sömuleiðis tók ég til og skoðaði þingsályktun sem var samþykkt á Alþingi 30. mars 2020, um sérstakt tímabundið fjárfestingarátak, sem var upphaflega 15 milljarðar og endaði í tæpum 18 milljörðum. Ég skoðaði fjárveitingarnar sem þar eru tilgreindar, nefndarálitin og breytingartillögurnar sem fylgdu og ræðu framsögumanns meiri hluta í því máli, hv. þm. Willums Þórs Þórssonar, formanns fjárlaganefndar.

Að þessum gögnum skoðuðum er sú framsetning sem hæstv. samgönguráðherra hefur í þessu máli eiginlega forkastanleg; að halda því fram að hér sé Miðflokkurinn að stoppa framkvæmdir. Því betur sem gögnin eru skoðuð því vitlausari verður sú nálgun ráðherrans og hún fær mann til að hugsa hvort hæstv. ráðherra hafi ekki tilfinningu fyrir eða yfirsýn yfir þá þætti sem saman ramma inn fjármögnun þeirra verkefna sem eru í undirbúningi og framkvæmdafasa núna og síðan samspil núgildandi samgönguáætlunar, 15 milljarða fjárfestingarátaksins sem samþykkt var hér 30. mars, og þess hluta þess sem fer í samgöngumál, og síðan aftur þess hluta samgönguframkvæmdanna sem hv. umhverfis- og samgöngunefnd, en ég og hv. þm. Karl Gauti Hjaltason skipuðum 2. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar við afgreiðslu málsins, er öll sammála um. Allir nefndarmenn eru sammála um það með hvaða hætti þeim fjármunum verður ráðstafað en það er nú bara þannig að þeir fjármunir verða ekki fastir í hendi fyrr en einhvern tímann undir lok árs.

Frumvarp verður lagt fram 1. október, fjármálaáætlun, sem mun fela í sér þessa fjárfestingaráætlun upp á 60 milljarða eins og tilgreint hefur verið. Ég tel líklegt að það verði einhvers staðar í námunda við 30 milljarðar af þeim 60 sem fari til samgöngumannvirkja. Þegar það frumvarp hefur verið afgreitt erum við komin með fast land undir fætur hvað fjármögnun margra þeirra verkefna sem mikilvægust eru varðar. Að halda því fram að umræða hér í nokkra klukkutíma, sem flestir eru utan áætlaðs þingfundatíma, sé að tefja framkvæmdir í landinu er svo fráleitt að það tekur ekki nokkru tali. Maður hefði haft skilning á því ef hæstv. ráðherra hefði misst þetta út úr sér einu sinni í viðtali af því að hæstv. ráðherra hefði þá ekki hugsað betur hvernig hann myndi rökstyðja mikilvægi þess að allt klabbið kláraðist núna. En þegar berast skjáskot frá fótgönguliðum Framsóknarflokksins á samfélagsmiðlum þá virðist þetta bara hafi verið lína sem var lögð út. Þegar efnisatriðin eru skoðuð þá er ekkert innihald, bara ekki neitt. Þá rifjast auðvitað líka upp skjáskot þar sem hæstv. samgönguráðherra, eða einhverjir af starfsmönnum hans, flögguðu því að PPP-málið myndi tryggja 4.000 ársverk. Í andsvari við óundirbúinni fyrirspurn í morgun eru þau allt í einu ekki orðin nema 1.000. Auðvitað eru tvöföldun Hvalfjarðarganga og lagning Sundabrautar þegar þar að kemur ekki að fara að breyta neinu í grundvallaratriðum hvað atvinnumál þjóðarinnar varðar á næstu mánuðum og ég bara bið um að þeir sem mesta ábyrgð bera í þessu máli hagi málflutningi sínum þannig að eitthvert vit sé í.