150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[18:50]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Hæstv. forseti. Ég var að gera tilraun til þess að fara yfir þann þátt samgönguáætlunar sem snýr að borgarlínu sem hefur talsvert verið rædd í fjölmiðlum undanfarna daga. Ég var að reyna að gera þann þátt málsins einfaldari og þjappa meginatriðum saman í von um að fá einhver svör í umræðunni hér í þinginu frá talsmönnum þess máls. Fram að þessu hafa helstu stuðningsmenn málsins látið nægja að senda frá sér einhver skeyti á samfélagsmiðlum eða mæta í útvarpsviðtöl og tala, að mínu mati, algerlega á skjön við þá umræðu sem hefur átt sér stað hér. Ég er að vonast til þess að fá einhver svör, einhver viðbrögð, það má gjarnan vera gagnrýni, við athugasemdum okkar við þetta verkefni og leitast því við að einfalda málið og þjappa því saman.

Ég var búinn að nefna fjármögnun borgarlínu, eins óljós og hún er. Ég var búinn að nefna þau áhrif sem hún hefur með því að þrengja að umferð og koma í veg fyrir möguleika á betri ljósastýringu á höfuðborgarsvæðinu, sem er algjört lykilatriði í því að liðka fyrir umferð. Og að sjálfsögðu var ég búinn að nefna þau áhrif sem felast í því að eyða gríðarlegu fjármagni í þetta dæmi sem nýtist ekki í samgöngubætur sem gætu skilað betra flæði. Ég átti hins vegar eftir að gera athugasemd við þá hugmynd sem birtist í borgarlínuverkefninu að reka tvöfalt almenningssamgöngukerfi á höfuðborgarsvæðinu.

Nú er höfuðborgarsvæðið, eins og menn þekkja, mjög strjálbýlt svæði miðað við það sem menn þekkja í mörgum evrópskum borgum sem hafa byggst upp frá miðöldum með þéttum kjarna og eru með allt aðrar forsendur fyrir rekstri almenningssamgangna en Reykjavík. En hér er sem sagt verið að skipuleggja samgöngukerfi sem ætti betur heima í slíkri borg fyrir strjálbýla höfuðborg Íslands. Ekki er nóg með það heldur munu áformin fela í sér að reka tvöfalt kerfi, tvöfalt strætisvagnakerfi í raun, á höfuðborgarsvæðinu öllu. Það er afleiðing af því að borgarlínan kemst ekki um öll hverfin. Hún fer fyrst og fremst eftir meginsamgönguæðum byggðarinnar og þrengir þar að annarri umferð. Hún býr til nýjar umferðarteppur en hún fer ekki út í hverfin og þá þarf annað strætisvagnakerfi að sinna því að safna fólki saman í hverfunum, flytja það að borgarlínunni. Þegar viðkomandi farþegi er kominn á áfangastað borgarlínunnar þarf hann jafnvel að taka annan strætisvagn til að flytja sig í það hverfi sem hann vildi komast í. Og hvað telja menn að þetta muni kosta?

Við höfum séð hversu erfiðlega rekstur almenningssamgangna hefur gengið hér á Íslandi, og ekki hvað síst á höfuðborgarsvæðinu, í ár og áratugi. Dettur einhverjum í hug að það verði hagkvæmara að reka tvöfalt kerfi? Ætlar einhver að halda því fram að það að vera með hverfisstrætisvagna sem þræða götur hinna ýmsu hverfa borgarinnar, væntanlega án þess að geta farið um alla borg og þannig samnýst betur byggðinni, á sama tíma og borgarlínu er komið á, muni skila sér í ódýrari eða hagkvæmari almenningssamgöngum?

Ég hefði mikinn áhuga á að heyra rökin fyrir því að það sé raunhæft, hafi einhver slík rök fram að færa. En eins og ég nefndi hér í upphafi vantar mikið upp á að talsmenn þessa verkefnis hafi fyrir því að útskýra kosti þess. Það væri mjög áhugavert að heyra ef einhver getur útskýrt það fyrir mér hvernig það getur orðið hagkvæmara að reka tvöfalt samgöngukerfi, annars vegar með hverfisvögnum, og mjög takmarkað hvert þeir geta farið, og hins vegar með borgarlínu, sem er í eðli sínu verkefni sem óhjákvæmilega fer úr böndunum kostnaðarlega. Hvernig getur það orðið hagkvæmara þegar þetta tvennt kemur saman?

Ég var nú ekki búinn með þennan kafla og bið hæstv. forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.