150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[18:55]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Það er í sjálfu sér skaði að hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skuli ekki hafa séð sér fært að vera við þessa umræðu og taka snerru við okkur. Ég sé að á mbl.is í dag, eftir hádegi, segir hæstv. ráðherra að ef samgönguáætlanir verði ekki samþykktar fyrir þinglok muni það seinka öllum framkvæmdum. Það hefur eitthvað gerst í hádeginu því að fyrir hádegi gat hann ekki svarað hv. þm. Bergþóri Ólasyni um það hvaða framkvæmdir myndu tefjast ef þessar áætlanir næðu ekki fram að ganga. Ég held að enginn í þessum sal núna hafi sérstakan áhuga á því að þessar áætlanir verði ekki samþykktar fyrir þinglok. Það eina sem okkur finnst skylt að gera er að ræða þær að nokkru marki og varpa ljósi á þær, hvernig þær tengjast innbyrðis og tengjast stórum málum öðrum, sérstaklega sem tengjast höfuðborgarsvæðinu.

Það er nú svo merkilegt að þessar áætlanir eru í sjálfu sér ekkert áætlanir hæstv. samgönguráðherra heldur eru þetta áætlanir sem þingið, sérstaklega hv. umhverfis- og samgöngunefnd, hefur samþykkt og sett upp, þar á meðal félagar hæstv. ráðherra í núverandi ríkisstjórn. Í sjálfu sér má segja að í þessum málum hafi hann verið nánast utan gátta í sumum tilfellum og ekki komið að málum hvað þetta varðar.

Það er engin launung á því, eins og ráðherrann segir í þessu viðtali, að við höfum rætt þetta mál nokkuð ítarlega. Þó hefur ekkert verið gengið á tíma þingsins út af þeim umræðum, þær hafa verið á þingfundatíma og að hluta til utan hans, eins og stundum hefur komið fyrir áður þegar við Miðflokksmenn höfum þurft að tjá okkur um ákveðin mál. En það hefur ekki orðið til þess að tefja fyrir málum og hvað þá að tefja fyrir störfum þingsins, alls ekki.

Menn verða að aðgæta það að öll þessi atburðarás er liður í því að við erum jú að fara að ljúka þingstörfum fyrir stutt sumarhlé. Auðvitað verður að liggja fyrir ákveðinn vilji til að ganga frá málum í góðri sátt við alla og þessi tvö mál eru einungis hluti af því. En eins og menn vita eru áhrif Framsóknarflokksins í þessari ríkisstjórn nánast alveg í lágmarki, eigum við ekki að orða það þannig til að tala íslensku. Þessi flokkur er nú orðinn hrumur nokkuð og einn þingmaður hans lýsti því svo í fyrra að hann væri með belti, axlabönd, í smekkbuxum með álímdan hártopp og nýja skó. Það hefur lítið breyst. En út af fyrir sig er hann það sem er kallað á enskri tungu, lauslega snarað, saklaus áhorfandi. Hann er ekki gerandi í því sem er að gerast nú hér á landi og það kristallast m.a. í tengslum hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við þessar tvær áætlanir og það sem er verið að áætla og gera í samgöngumálum á Íslandi um þessar mundir.

Ég hefði gjarnan viljað hafa um þetta fleiri orð, herra forseti, en því miður er tími minn útrunninn að sinni og ég bið hæstv. forseta að setja mig á mælendaskrá.