150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[19:00]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég ræddi í síðustu ræðu um vegaframkvæmdir á svokölluðu norðursvæði og er komin að austursvæðinu og er þá komin nærri því til enda þingsályktunartillögunnar. Þar segir um undirbúning verka utan áætlunar: „Lögð er til fjárveiting til hönnunar verka utan áætlunar sem koma til framkvæmda síðar.“

Hringvegur um Lagarfljót er nefndur, en ætlunin er að endurbyggja brú yfir Lagarfljót á þriðja tímabili áætlunarinnar. Það vita nú margir að þetta er mjög gömul brú, var reist um 1905. Það á að endurnýja timburgólfið á fyrsta tímabili þó svo að endurbyggja eigi brú aftur á þriðja tímabili áætlunarinnar. Einnig þarf að fara í viðgerðir á stöplum enda skilst mér að brúin sé beinlínis orðin hættuleg.

Síðan er hringvegur um suðurfirði nefndur og lagt er til að gerðar verði verulegar endurbætur á veginum milli Reyðarfjarðar og Breiðdalsvíkur. Það er einnig á þriðja tímabili áætlunarinnar. Helstu kaflar sem þarf að bæta eru í botni Reyðarfjarðar, Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar og svo aftur á suðurströnd Fáskrúðsfjarðar.

Á þriðja tímabili áætlunarinnar er ætlunin að leggjast í lagningu nýs vegar um Lón. Það þýðir að sex einbreiðar brýr leggjast af og hringvegurinn styttist um 4 km. Þetta er á þriðja tímabili og svo er það hringvegurinn Kotá–Morsá þar sem lagt er til á þriðja tímabili að gerðar verði nýjar brýr yfir Virkisá og Svínafellsá, Skaftafellsá og nýr vegur milli Kotár og Mosár sem styttir hringveginn um 5 km og fækkar einbreiðum brúm um þrjár. Undir liðnum um Norðfjarðarveg um Grænafell er fjallað um snjóflóðavarnir, en lagfæra þarf Norðfjarðarveg og huga að snjóflóðavörnum. Það er sett á annað tímabil áætlunar og Hlíðarvegur er settur á þriðja tímabilið. Borgarfjarðarvegur, Eiðar–Laufás: Þar á milli er lítill stubbur og furðulegt hvernig hann hefur orðið út undan. Lagt er til að farið verði í endurbætur þar á fyrsta og öðru tímabili áætlunarinnar en þar er nú malarvegur. Síðan eru það ýmsir staðir á Upphéraðsvegi en leggja á bundið slitlag þar sem enn eru malarvegir og það á að gerast á öðru tímabili áætlunar.

Þar með er upptalið það sem tekið er til sérstakra framkvæmda og einnig er minnst á það sem fellur undir sameiginleg verkefni. Það eru ýmsar framkvæmdir sem eru undir 1 milljarði kr. og ekki er sérstaklega fjallað um þau verkefni. Það er sett á þriðja tímabil og taldir eru upp býsna margir vegir hér sem eru samt, sýnist mér við fyrstu sýn, nokkuð mikilvægir. Undir fyrirsögninni Tengivegir og bundið slitlag kemur fram að ætlunin er að styrkja og leggja bundið slitlag á umferðarlitla tengivegi og fyrir liggja verklagsreglur um hvernig staðið verður að því .

Ég læt þetta duga núna en bið forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.