150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[19:06]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Virðulegur forseti. Það sem einkennir okkar tíma um þessar mundir er m.a. alvarlegur samdráttur í efnahagsmálum, meiri en a.m.k. í mjög langan tíma, alvarlegt atvinnuleysi og ríkisfjármálin náttúrlega gengin úr skorðum af þessum sökum. Á hinn bóginn stöndum við frammi fyrir því, fámenn þjóð í stóru landi, að fjölmörg verkefni eru brýn og aðkallandi í samgöngumálum og snerta svokallaða innviði. Þá erum við að tala um vegi, brýr, hafnir, flugvelli og annað af því tagi.

Það er við þessar aðstæður, herra forseti, sem Sjálfstæðisflokkurinn í ríkisstjórn telur þann kost vænstan að setja 50 milljarða kr. í svokallaða borgarlínu, sem þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur sagt algjörlega óútfært fyrirbæri, og eins og hún er núna virðist ekkert vera hönd á festandi hvernig hún er. Það er við þær aðstæður sem Sjálfstæðisflokkurinn, sem ber ábyrgð á ríkisfjármálunum, kýs að bjóða upp á það að setja 50 milljarða af fé úr ríkissjóði í þetta verkefni og kasta á eftir því Keldnalandinu og jafnvel Íslandsbanka. Reyndar er ekki annað að sjá en að Sjálfstæðisflokkurinn sé alvarlega klofinn í málinu. Það er ekki hægt að sjá að þingflokkurinn sé einhuga um málið. Mikils metnir Sjálfstæðismenn, fyrrum ráðherrar og forystumenn í flokknum, hafa lýst mjög eindreginni afstöðu gegn þessu og í dag birtist grein eftir Eyþór Arnalds sem er oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórn þar sem hann fjallar um það með þessum sama hætti, hann er eindregið andvígur þessum fyrirætlunum.

Reyndar er það svo, herra forseti, að í Morgunblaði dagsins eru líklega einar fjórar greinar þar sem hinni svokölluðu borgarlínu er andmælt mjög kröftuglega og málefnalega. Vil ég fyrst nefna ritstjórnargrein blaðsins sem stundum er í tveimur hlutum en er í dag öll lögð undir þessi mál. Þar er vitnað til þriggja þingmanna Miðflokksins og þeir eru formaður flokksins, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, og fulltrúar Miðflokksins í hv. umhverfis- og samgöngunefnd, hv. þingmenn Karl Gauti Hjaltason og Bergþór Ólason. Síðan er greinin sem ég var að vitna til eftir Eyþór Arnalds og svo grein sem ég vitnaði í fyrr í dag eftir fyrrverandi prófessor við Háskóla Íslands, Jónas Elíasson, og í ritstjórnarpistlinum Staksteinum er vitnað til greinar eftir verkfræðinginn Geir Ágústsson. Allt þetta efni er af sama toga og málflutningur okkar Miðflokksmanna hér í þessum efnum.

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórn, segir í sinni grein, með leyfi forseta:

„Löngu tímabært er að fara í stórátak í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu.“ — Og vil ég nú taka mjög undir það eins og við höfum verið að halda fram, Miðflokksmenn. — „Reykjavík hefur setið eftir og fjármagn farið annað. Borgin hefur afþakkað framkvæmdafé. Sjálfskipað framkvæmdastopp var formfest í svonefndu 10 ára tilraunaverkefni um þar sem mikilvægar framkvæmdir voru settar á ís hefur búið til samgönguvanda.“

Ekki sé farið í raunhæfar lausnir sem hann nefnir, ljósastýringu og annað af því tagi og mislæg gatnamót býst ég við að hann hafi í huga. Hann segir, með leyfi forseta:

„Í staðinn er farið í verkefni sem á að kosta meira en 70 milljarða og alger óvissa er um. Þetta er gert á sama tíma og tekjur skreppa saman vegna kóvídkreppu. Væri ekki nær að fara í það sem er árangursríkt, fyrirsjáanlegt og skynsamlegt?“

Er von að maðurinn spyrji?

Herra forseti. Ég bið um að verða settur að nýju á mælendaskrá til að geta fjallað ítarlegar um þessi efni.