150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[19:11]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Ég fór yfir gjaldtökuhugmyndir stjórnvalda í síðustu ræðu og hef hugsað mér að klára það í þessari ræðu. Ég er ekki viss um að almenningur í landinu hafi gert sér grein fyrir því hversu langt á veg þessar hugmyndir eru komnar. Fólk áttar sig kannski ekki á því að nú þegar er þetta komið í tvö frumvörp og þingsályktunartillögu af hálfu stjórnvalda.

En það sem ég fann mest að var að hugmyndirnar skyldu koma fram með svona brotakenndum hætti, að þær myndu birtast í þremur ólíkum stjórnarmálum á þessu þingi. Gjaldtakan er sett fram með ólíkum hætti í þremur stjórnarmálum. Ég hefði viljað sjá stjórnvöld koma með heildstæða stefnu varðandi gjaldtökuna. Ég vil minna á það, herra forseti, að við höfum enn ekki séð útfærslu á gjaldtökuhugmyndum stjórnvalda. Það er raunverulega fjórða málið, gjaldtökuhugmyndir stjórnvalda af umferð vegna orkuskipta í samgöngum. Það mál hefur ekki komið hingað inn. En nú þegar eru komin þrjú mál sem öll boða með mismunandi hætti gjaldtöku af umferð.

Ég var búinn að fara yfir fyrsta málið, þ.e. nefndarálit meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar, á bls. 11, varðandi jarðgöng. Þar er gert ráð fyrir því og þykir eðlilegt að ef farið verður í jarðgangagerð á næstunni verði rekstur og framkvæmdir að einhverju leyti fjármagnaðar með gjaldtöku í gegnum jarðgöngin. Þetta er að mínu mati hugmyndin sem kemur þarna fram. Við höfum ekki séð það áður svona beint í stjórnarfrumvarpi.

Númer tvö er frumvarp til laga um að stofna opinbert hlutafélag um að efla samgöngur og byggja upp samgönguinnviði á höfuðborgarsvæðinu. Ég hafði lesið úr því að eitt af markmiðum og verkefnum hlutafélagsins væri að innheimta flýtigjöld, eins og þau eru núna kölluð, af umferð á höfuðborgarsvæðinu. Það mætti eyða miklum tíma í að fara yfir verkefnið sem því hlutafélagi er falið í frumvarpinu og mætti finna ýmislegt að því vegna þess að ef farið er yfir frumvarpið virðist verið að stofna alltumlykjandi ríki í ríkinu sem eigi að stjórna samgöngum á höfuðborgarsvæðinu, bæði framkvæmdum og því að rukka gjöld. Stóran hluta af þessum 120 milljarða kr. framkvæmdum á að fjármagna með flýtigjöldum. Stóran hluta. Menn eiga því von á ýmsu. Það er rétt að vekja athygli á því hér að þetta er bara önnur af þremur gjaldtökuhugmyndum og það væri alveg þess virði að fara betur yfir það síðar.

Það þriðja, sem ég komst ekki í að fara yfir í síðustu ræðu minni, var frumvarp um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir, þ.e. þetta er stjórnarfrumvarp sem liggur hér fyrir óafgreitt, eins og hin bæði, og þar er líka gert ráð fyrir gjaldtöku. Og hvar er það? Það er til að fjármagna sex framkvæmdir sem eru nefndar í frumvarpinu. Ölfusárbrú sem er í mínu kjördæmi er þar á meðal, láglendisvegur um Mýrdal og í gegnum Reynisfjall og Hornafjarðarfljót, Öxi og fleiri slíkar framkvæmdir. Gert er ráð fyrir að fjármagna þessi verkefni með gjaldtöku. Þetta er þriðja gjaldtökuhugmyndin.

Herra forseti. Verði þetta allt að raunveruleika með svona misjöfnum hætti, hvaða hugmyndir koma þá upp næst? Hvað segja vegfarendur sem eiga leið frá Hornafirði til Reykjavíkur og fara í gegnum fjögur, fimm gjaldtökuhlið þegar þeir bera sig saman við t.d. vegfarendur frá Hólmavík sem fara ekki í gegnum neitt hlið? Þá kemur vitaskuld upp krafa um að þeir vegfarendur greiði einnig veggjöld.