150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[19:16]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég var í síðustu ræðu að fjalla um fjármál Reykjavíkurborgar og sveitarfélaganna sem standa að borgarlínuverkefninu. Vegna veirufaraldursins hefur fjárhagur þessara sveitarfélaga og reyndar ríkisins líka orðið fyrir verulegu höggi og stefnir í a.m.k. 300 milljarða kr. halla á ríkissjóði vegna veirufaraldursins. Þegar við í fjárlaganefnd ræddum fjáraukalagafrumvörpin fengum við gesti og umsagnir, m.a. frá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborg. Það er mjög athyglisvert að á sama tíma og sveitarfélögin og Reykjavíkurborg ætla að ráðast í borgarlínuverkefnið hafa þau orðið fyrir verulegu tekjufalli og stefnir í mikinn halla á rekstri þeirra, t.d. Reykjavíkurborgar. Á sama tíma á að ráðast í framkvæmd upp á tugi milljarða króna. Það er vandséð, herra forseti, hvernig hægt er að ráðast í þetta verkefni í þessum efnahagsaðstæðum.

Reykjavíkurborg kemur fyrir fjárlaganefnd þar sem hún er í raun og veru að óska eftir fjárstuðningi frá ríkissjóði vegna veirufaraldursins. Á sama tíma stefnir borgin hraðbyri í að koma því í gegn að hér verði reist borgarlína fyrir tugi milljarða króna, á annað hundrað milljarða, sem á örugglega eftir að fara verulega fram úr öllum áætlunum.

Herra forseti. Ég verð að segja að mér finnst mjög einkennilegt að þetta verkefni skuli ekki hafa verið blásið af í ljósi fjárhagsstöðu sveitarfélaganna, fjárhagsstöðu ríkissjóðs og alls þess sem ríki og sveitarfélög hafa þurft að takast á við vegna veirufaraldursins. Það eitt og sér er tilefni til þess að blása þessa framkvæmd af. En svo er greinilega ekki. Það er fróðlegt að fara yfir umsögn Reykjavíkurborgar við fjáraukalagafrumvarp númer tvö. Þar kemur m.a. fram að Reykjavíkurborg hefur unnið greiningu á efnahagslegum áhrifum veirufaraldursins á fjárhagsstöðu borgarinnar, með leyfi forseta:

„Reykjavíkurborg áætlar núna að næstu tvö árin verði útsvarstekjur undir útsvarstekjum ársins 2019 og samanlagt um 16,8 milljörðum undir fjárhagsáætlun 2020 og 2021. Þá er áætlað að tekjur af sölu byggingarréttar og gatnagerðargjöldum dragist saman um rúmlega 8 milljarða á sama tímabili. Spár um þróunina á vinnumarkaði gefa fullt tilefni til að ætla að mikil fjölgun verði á þeim sem þurfa fjárhagsaðstoð og er áætlað að útgjöld vegna hennar aukist um 900 millj. kr. á þessu ári umfram fjárhagsáætlun, um 4.200 millj. kr. á næsta ári og um 8.700 millj. kr. umfram fjárhagsáætlun 2022 til 2024.“

Herra forseti. Það er alveg ljóst að rekstur Reykjavíkurborgar er algerlega í járnum og veirufaraldurinn hefur haft gríðarleg áhrif. Á sama tíma á að ráðast í þessa gríðarlega miklu og kostnaðarsömu framkvæmd. Það er engin skynsemi í þessu, herra forseti. Það verður bara að segjast alveg eins og er. Það er engin skynsemi í að ætla að ráðast í svo mikil útgjöld á sama tíma og tekjur sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar hafa dregist verulega saman, útgjöld að sama skapi aukist, eins og ég nefndi vegna fjárhagsástæðna o.s.frv.

Í umsögn Reykjavíkurborgar til fjárlaganefndar, þar sem borgin er í raun og veru að falast eftir fjárhagsstuðningi frá ríkissjóði vegna veirufaraldursins, segir, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði neikvætt 2020–2022 en á sama tíma eykst reiknuð fjármögnunarþörf borgarsjóðs langt umfram fjárhagsáætlanir á þessu tímabili eða um 39 milljarða samanlagt árin 2020 og 2021 og einnig mjög háum fjárhæðum 2022–2024 eða um 36,5 milljörðum.“

Herra forseti. (Forseti hringir.) Þetta sveitarfélag ætlar að fara í framkvæmdir upp á annað hundrað milljarða í borgarlínu. (Forseti hringir.) Það er engin skynsemi í þessu. Ég bið herra forseta að setja mig aftur á mælendaskrá þar sem ég þarf að fjalla nánar um þetta mál sérstaklega.