150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[19:22]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Það var áhugavert að heyra hv. þm. Birgi Þórðarson fara yfir tölurnar og stöðu Reykjavíkurborgar þegar kemur að þessum málum öllum saman. Það er rétt að það er ábyrgðarhluti að fara í þær framkvæmdir sem blasir við að eru mjög fjármagnsfrekar. Það að sveitarfélag, sem er statt með þeim hætti sem borgin er, geri það lýsir því svolítið að ekki er mikið verið að velta fyrir sér fjárhagnum heldur er verið að taka mikla sénsa. Mögulega er hugmyndin einmitt að senda reikninginn til ríkissjóðs þegar upp verður staðið.

Nú standa sveitarfélögin í kringum höfuðborgina eilítið betur, sum hver svolítið meira en eilítið betur. Engu að síður yrði það stór biti fyrir þau að fá á sama tíma bakreikninga fyrir þessari miklu framkvæmd. Það dettur engum annað í hug en að Reykjavíkurborg myndi á einhverjum tímapunkti þrýsta á þessi sveitarfélög að leggja meira í púkkið verði niðurstaðan sú sem okkur sýnist, að borgin geti ekki að axlað sína ábyrgð í þessu máli.

Það leiðir mig reyndar að öðru máli, herra forseti, og það eru yfirlýsingar nokkurra stjórnarliða, þar á meðal hæstv. samgönguráðherra, í fjölmiðlum um að svo og svo mörg verkefni tefjist eða geti ekki farið í gang fyrr en þessari umræðu sé lokið. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þeir sem tala með þeim hætti, þar með talið hæstv. ráðherra, komi hér og segi okkur hvaða verkefni það eru nákvæmlega. Á það hefur verið bent, m.a. af hv. þm. Bergþóri Ólasyni, að verkefnin sem um ræðir séu á áætlun og búið að tryggja fjármagn til þeirra, m.a. í fjáraukalögum. Þar af leiðandi hljótum við að spyrja, fyrst fjölmiðlamenn ganga ekki á eftir svörum við þeim spurningum sem eðlilegt er að spyrja þegar lýst er yfir að verkefni upp á milljarða króna detti fyrir borð eða verði ekki að veruleika: Hvaða verkefni eru það? Hvaða verkefni eru það sem ekki er hægt að byrja á núna um helgina verði umræðunni ekki lokið? Ég held að mjög mikilvægt sé að fá svör við því. Það er alveg ómögulegt að stjórnmálamenn sem svona segja komist upp með það að svara ekki spurningunni um það hvaða verkefni sé um að ræða. Það er hægt að segja ýmislegt í fjölmiðlum, að þetta stoppi, tefjist og ekki verði af þessu og hinu. En menn þurfa hins vegar að færa fyrir því rök. Og ég verð að segja að það eru vonbrigði að sjá hve lítið bæði blaða- og fréttamenn hafa fylgt því eftir að spyrja um það.

Það er hins vegar engin ástæða til að standa hér og skammast í því ágæta fólki. Við erum að ræða samgönguáætlun og þá óvissu sem fylgir ákveðnum hlutum hennar. Óvissan er einna mest um þennan höfuðborgarsáttmála, eða hvað við köllum hann, þetta ohf.-fyrirtæki sem fjallað er um í öðru þingmáli sem er næst á dagskrá þessa fundar. Það breytir ekki því að undirstaða þess að hægt sé að fara í borgarlínu, stofna félagið, er að verkefnin eru í samgönguáætluninni. Þar af leiðandi erum við eðlilega að ræða borgarlínu enda er hún leiðandi stef í þeim áætlunum sem hér er um að ræða.

Við hljótum á sama tíma gera þá skýru kröfu að þeir sem mæla fyrir verkefninu komi upp og segi okkur, segi íbúum suðvesturhornsins, hvernig þeir ætla á sama tíma að bæta samgöngur fyrir einkabílinn, þær samgöngur sem langsamlega flestir kjósa að nota og þurfa að nota. Það þarf vitanlega að mæta þeim sem ekki eiga bíl eða vilja ekki eiga bíl. En það má ekki gleyma þeim stóra hópi sem kýs þennan ferðamáta. Það er ótrúlegur sósíalismi í gangi hjá ríkisstjórninni að ætla sér að hafa vit fyrir fólki og pína það í að fara úr einkabílnum og yfir í almenningssamgöngur, eins og ríkisstjórnin virðist halda að fólk eigi að ferðast. Undirliggjandi virðist vera þörfin á að geta sýnt fram á að fjöldi fólks vilji nota almenningssamgöngur, ekki bara þessi rúmlega 4% sem gera það í dag. Það er búið taka tíu ár að hækka úr þessum 4% sem notuðu þetta fyrir tíu árum, eða hvað það var, og ekkert hefur gerst í því. Það er enn sami fámenni hópurinn sem notar almenningssamgöngur og það ætti kannski að horfa til þess hvernig hægt er að auka þá hlutdeild áður en haldið er áfram inn í svona verkefni.