150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[19:43]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Herra forseti. Ég er nærri því komin að enda á þessari þingsályktunartillögu samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fyrir árin 2020–2034. Ég er komin að því sem fjallar um bundið slitlag á tengivegum. Það er ætlunin að bæta vegi sem eru lítið eknir og leggja bundið slitlag á þá. Þarf að bæta þar úr jafnvel í sambandi við beygjur og blindhæðir og verður gripið til viðeigandi mótvægisaðgerða, eins og það kallast í plagginu. Beygjur verða merktar með leiðbeinandi hraða og stefnuörvum og blindhæðir verða málaðar með heildreginni línu og merktar með viðeigandi umferðarmerki. Vissulega verður fylgt veghönnununarreglum vegna öryggissvæða. Þetta hljómar mjög vel. Með þessum aðgerðum er Vegagerðin nokkuð viss um að það megi flýta fyrir lagningu bundins slitlags á umferðarlitla tengivegi án þess að dregið verði úr öryggi þeirra.

Svo er aðeins fjallað um breikkun brúa. Það er annars vegar verið að tala um að breikka brýr eða skipta út einbreiðum brúm og tiltekið aftur að það séu 677 einbreiðar brýr og þar af 36 á hringveginum. Það er dálítið um endurtekningar hérna.

Mér líst mjög vel á kaflann sem fjallar um hjóla- og göngustíga utan höfuðborgarsvæðisins. Það er mjög mikilvægt með tilliti til öryggis þeirra sem kjósa að hjóla um vegi landsins. Miðað er við að þátttaka Vegagerðarinnar verði allt að helmingur kostnaðar nema á langleiðum utan höfuðborgarsvæðisins þar sem kostnaðarþátttakan getur orðið meiri. Með stígagerð er stefnt að því að hjólandi ökumenn verði ekki leyfðir á vegum þar sem eru stígar. Ég held að þetta sé mjög gott mál.

Einnig er fjallað hér um girðingar og það er töluvert mikilvægt. Þó að einhverjum kunni að finnast það minna mikilvægt þá skiptir öllu máli þegar við erum að ræða umferðaröryggi að girðingar séu í góðu lagi.

Á bls. 70 er fjallað um jarðgangaáætlun og nefnt að undanfarin ár hafi verið unnið við Dýrafjarðargöng og að þeim framkvæmdum muni ljúka á árinu 2020, sem er í ár. Í þessari áætlun er sagt að framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng muni hefjast 2022 og síðan verði ráðist í gerð jarðganga á milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar, sem við köllum oft Seyðisfjarðargöng, og Mjóafjarðar og Fannardals, Mjóafjarðargöngin. Einnig verður leitað leiða til að fjármagna tvöföldun Hvalfjarðarganga og jarðgöng í Reynisfjalli með samstarfi við einkaaðila. Mér þykir ágætt að sjá framtíðina sem hér er dregin upp. Það eru þau jarðgöng sem hafa verið til umræðu; Ísafjörður–Súðavík, Fljót–Hólsdalur í Siglufirði, sem sagt Siglufjarðarskarð, Múlagöng, breikkun vegna mikillar umferðar, en ég er ansi hrædd um að það þurfi að komast fyrr á dagskrá, og svo Hvalnesskriðurnar, Lónsheiði, Tröllaskagagöng og jarðgöng milli Vopnafjarðar og Héraðs. Gert er ráð fyrir að bein framlög af samgönguáætlun og jarðgangaáætlun standi undir helmingi framkvæmdakostnaðar við jarðgöng en það er ætíð stefnt að því að gjaldtaka verði af umferð í gegnum jarðgöng. Ég tel að það sé ágætisleið til að fá framkvæmdir af stað og það fari ágætlega saman.

Þá erum við loks komin að kaflanum sem fjallar um samgöngusáttmálann sem var undirritaður 26. september 2019 af ríkinu og sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og fjallar um skipulag og fjármögnun uppbyggingar á samgönguinnviðum, þar með talið innviðum almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu til 15 ára.