150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[19:59]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég var í síðustu ræðu að fjalla um að staða Reykjavíkurborgar og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu sem standa að borgarlínuverkefninu er sannarlega ekki góð og það á reyndar líka við um ríkissjóð. Vegna veirufaraldursins er hallinn orðinn verulegur á ríkissjóði og ekki sér fyrir endann á því. Þess vegna finnst mér skjóta mjög skökku við að á sama tíma eigi að fara að ráðast í þær kostnaðarsömu framkvæmdir sem borgarlínan er, verkefni upp á annað hundrað milljarða kr. Maður spyr sig bara út frá þeim forsendum: Hvers vegna var þetta verkefni ekki blásið af, herra forseti, í ljósi efnahagsástandsins, vegna veirufaraldursins, stöðu sveitarfélaganna og þeirrar miklu óvissu sem fram undan er? Mér finnst það sérstaklega einkennilegt að hér skuli eiga að keyra í gegn á örfáum dögum samkomulag sem felur í sér þessa skuldbindingu fyrir ríkissjóð og sömuleiðis fyrir sveitarfélögin í ljósi allrar þeirrar óvissu sem er í efnahagsmálum.

Ég hef verið að fara yfir umsögn Reykjavíkurborgar en Reykjavíkurborg kom á fund fjárlaganefndar vegna fjáraukalagafrumvarpanna, það voru þrjú frumvörp sem urðu að lögum. Reykjavíkurborg lagði fyrir nefndina umsögn og þar er ýmislegt sem kemur þar fram, margt fróðlegt um fjárhagslega stöðu Reykjavíkurborgar. Þar segir t.d., með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði neikvætt 2020–2022 en á sama tíma eykst reiknuð fjármögnunarþörf borgarsjóðs langt umfram fjárhagsáætlanir á þessu tímabili eða um 39 milljarða samanlagt árin 2020 og 2021 og einnig mjög háum fjárhæðum 2022–2024 eða um 36,5 milljörðum.“

Svo segir hér áfram, með leyfi forseta:

„Líklegt er að flest sveitarfélög muni glíma við verulega erfiðar fjárhagsaðstæður á þessu ári og næstu árum eins og ofangreind greining lýsir fyrir Reykjavíkurborg. Í aðgerðapakka 2 eða næsta aðgerðapakka vantar nauðsynlega að gera greiningar á fjármálum sveitarfélaga og koma með raunhæfar aðgerðir til að tryggja að þau geti staðið undir lögbundnum verkefnum sínum gagnvart íbúum og atvinnulífi.“

Það er alveg ljóst að Reykjavíkurborg gefur það til kynna í umsögn sinni til fjárlaganefndar að hún geti í raun ekki staðið undir lögbundnum verkefnum sínum gagnvart íbúum og atvinnulífi vegna stöðunnar sem komin er upp vegna veirufaraldursins. Og enn og aftur spyr maður, herra forseti: Ætlar þetta sama sveitarfélag að fara að standa í framkvæmdum upp á tugi milljarða í borgarlínu, í verkefni sem menn vita ekki hversu arðbært er, hversu margir koma til með að nota o.s.frv.? Það er mikil óvissa í kringum það allt saman þar sem ekkert liggur fyrir um rekstrarfyrirkomulagið eða hver eigi að standa straum af rekstrinum. Nú þegar er Strætó rekinn með verulegu tapi ár frá ári. Er eitthvað sem bendir til þess að það verði eitthvað skárra með borgarlínuverkefnið?

Það eru svo margir óvissuþættir að það hefði verið fullkomlega eðlilegt í ljósi efnahagsástandsins að slá þetta verkefni algerlega út af borðinu, sérstaklega í ljósi þess sem hefur dunið yfir sveitarfélögin og ríkissjóð vegna veirufaraldursins. Burt séð frá því hvort verkefnið sé hagkvæmt og allri óvissunni í kringum það, skipulagsmálunum og öllu því, er þetta punkturinn sem væri hægt að benda á. Þetta er eitthvað sem er ekki forsvaranlegt að ráðast í. Það verður bara að segjast alveg eins og er, forseti.

Það segir hér áfram í umsögn Reykjavíkurborgar til fjárlaganefndar:

„Vandinn snýst hins vegar ekki aðeins um skammtíma fjármögnunarvanda heldur stefnir í algerlega ósjálfbæran rekstur til margra ára.“

Hér er verið að tala um borgarsjóð. Þessi sami sjóður ætlar síðan að fara í veruleg útgjöld til borgarlínu. Ég verð að segja að ég er ekki alveg að skilja þetta mál, sérstaklega varðandi stöðu ríkissjóðs, stöðu borgarinnar og stöðu sveitarfélaganna sem standa að því. (Forseti hringir.) Ég vil fá að koma nánar að því á eftir og bið forseta vinsamlega að setja mig á mælendaskrá.