150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[20:15]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Mig langar að halda áfram með það sem hv. þm. Bergþór Ólason var að ræða hér í sambandi við tilraun. Mig langar að bæta í þessa tilraun og nefna aftur til sögunnar að mér finnst ekki fullreynt að laða fólk í strætó. Ég hef nefnt það hér nokkrum sinnum að það mætti búa til hvata þess eðlis að á morgnana væri frítt í strætó niðri í bæ, eins og það heitir, og svo seinni partinn væri aftur frítt á leiðinni til baka. Þannig gæti starfsfólk á stærsta vinnustaðnum sem er hér niðri í bæ, Landspítala, tekið strætó og við séð hvernig þetta hangir allt saman.

Ég hef líka nefnt hér áður að stofnanir, margar hverjar, eru farnar úr miðbænum eða úr miðborginni, Tryggingastofnun o.fl. Vel að merkja, það er ekki enn þá hægt að fara með strætó í Tryggingastofnun, það er enginn strætó sem gengur að þeirri stofnun. Við gætum nú bara byrjað á að laga það.

Ég er að komin þar að sem fjallað er um samgöngusáttmálann. Mig langar aðeins að nefna, af því að ég hef búið í útlöndum eins og svo margir aðrir hér, að við þekkjum hvernig hverfisvagnar virka. Mín reynsla af þeim er ekki slæm en þó get ég nefnt að þeir keyrðu mun sjaldnar um. Það var einna helst á tímum sem hentuðu jafnvel þeim eldri borgurum sem ég varð vör við og það var ekki endilega þannig að þeir sem nýttu sér hverfisvagna væru að fara út fyrir hverfið. Mér finnst alltaf þegar borgarlína er kynnt til sögunnar að hún sé sá lykill sem muni tengja saman hverfin. Ég veit ekki hvort þetta er fullrannsakað, hvernig það virkar, en eins og við vitum eru hverfi víða erlendis stærri, hafa hærra þjónustustig þannig að fólk getur sótt nærri því alla grunnþjónustu sem það þarf á að halda í sínu eigin hverfi. Það þarf ekki út fyrir hverfið, þar er skóarinn og kaupmaðurinn o.s.frv.

Þegar við ræðum samgöngusáttmálann verðum við líka að hafa í huga að þetta er kostnaður sem mun leggjast á alla landsmenn og mér finnst dálítið ósanngjarnt að stilla þessu þannig upp. Nú er ég búin að fara yfir þessa þingsályktunartillögu frá samgönguráðherra og bara við að þaullesa hana sér maður hvað það eru mörg brýn verkefni sem snúa að öryggismálum, sérstaklega á vegum auðvitað, og öllu því sem viðkemur samgöngum og sérstaklega hvernig við viljum forgangsraða hlutunum. Nú hefur verið nefnt hér í sambandi við samgöngusáttmálann að það fyrsta sem ætti að gera gagnvart götum hér á höfuðborgarsvæðinu væri að setja upp samhæfðan ljósastýringarbúnað, það ætti að vera í fyrsta sæti, og sjá hvernig það muni duga. Ég er sannfærð um að það mun skipta máli. Ég nefndi t.d. að þegar maður er að keyra fram hjá Hörpu eru fjögur ef ekki fimm ljós sem þarf að fara fram hjá til að komast bara nokkra metra vegspotta. Þar verður ákveðið kapphlaup þar sem fólk vill komast sem lengst. Ég hugsa því að það gæti verið bara góð byrjun.

Svo vil ég á endanum nefna að mér líst alls ekki á að það eigi að setja Keldnaland (Forseti hringir.) undir þessa framkvæmd. Ég bið forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.