150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[20:26]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég gat þess í síðustu ræðu minni að það liggur fyrir hagfræðileg greining á hinni svokölluðu borgarlínu. Hún kemur fram í BS-ritgerð sem er lokaverkefni til prófs við hagfræðideild Háskóla Íslands. Leiðbeinandi höfundar er prófessor Ragnar Árnason sem er að góðu kunnur. Ég tel ástæðu til að fjalla nokkuð um ritgerðina og efni hennar af því að hún snertir þetta mál. Við erum að tala um stærsta verkefnið á sviði samgöngumála, eins og mál eru lögð fyrir hér, þ.e. hina svokölluðu borgarlínu. Mönnum virðist ekki bera alveg saman um hver verði kostnaðurinn við þetta fyrirbæri, eins og það hefur verið kallað, en a.m.k. hefur talan 80 milljarðar sést. Í fyrirliggjandi þingskjölum er gert ráð fyrir að úr ríkissjóði komi 50 milljarðar í verkefnið. Það er því eðlilegt að fjallað sé um fyrirliggjandi greiningar á verkefninu og þá ekki síst í hagfræðilegu tilliti.

Ritgerðin heitir Þjóðhagsleg hagkvæmni borgarlínu þar sem hún er metin með tilstyrk svokallaðrar kostnaðar- og ábatagreiningar sem ég fjallaði aðeins um og skýrði í síðustu ræðu. Af hálfu höfundar er lagt upp með að skýra frá því að á síðustu árum hafi, sem alkunna er, verið mikil umræða hér á landi um vandamál samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Þess er getið af hálfu höfundar að margir séu langþreyttir á umferðaröngþveitinu og tímanum sem fólk þarf að eyða í umferðinni á háannatímum. Höfundur rekur að af þessum ástæðum hafi borgarlína orðið eitt af aðalkosningamálunum í sveitarstjórnarkosningunum 2018.

Höfundur rekur að skiptar skoðanir séu um þetta fyrirhugaða samgöngukerfi og að hagkvæmni þess sé umdeild. Hann segir að sumir telji borgarlínuna lausn á samgönguvandanum en aðrir séu á þeirri skoðun að hún dugi ekki til að breyta ferðavenjum þjóðarinnar sem þróast hafi um langt skeið eða marga áratugi. Höfundur getur þess að sumir líti þannig á að með tækniframförum næstu ára, eins og með sjálfkeyrandi bílum, skapist möguleiki á mun skilvirkari samgöngum. Því verði þetta nýja kerfi, borgarlínan, fljótt úrelt. Taki menn eftir þessu.

Höfundur segir að líta megi á hugmyndirnar um borgarlínu — ég skýt inn: svo ófullburða og ófullkomnar sem þær nú eru þar sem eiginlega engir tveir sem um málið fjalla lýsa því með sama hætti — séu einungis uppfærð útgáfa af strætisvagnakerfinu sem þegar er fyrir hendi hér á höfuðborgarsvæðinu. Höfundur segir að því sé hægt að setja spurningarmerki við hvort endurbætt strætisvagnakerfi sé raunveruleg lausn til framtíðar og lýkur umfjölluninni með því að segja, með leyfi forseta:

„Hver svo sem skoðun manna er á þessu nýja kerfi virðast rökræður um hana oft á tíðum einungis byggðar á tilfinningum fremur en staðreyndum varðandi hagkvæmni þess að starfrækja það.“

Þetta eru athyglisverð ummæli í BS-ritgerð í hagfræði en skemmst er frá því að segja að niðurstaða ritgerðarinnar er sú að framkvæmdin rísi ekki undir því að teljast þjóðhagslega hagkvæm. Ég þarf að fjalla meira um þetta, frú forseti, og bið ég um að verða settur á mælendaskrá að nýju.