150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[20:48]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég ætla í þessari ræðu minni að koma örlítið inn á eitt af mikilvægustu verkefnunum í fyrirsjáanlegri framtíð á stórhöfuðborgarsvæðinu en það er Sundabraut. Fyrst er nauðsynlegt að setja það verkefni aðeins í sögulegt samhengi. Það hefur verið grátlegt að fylgjast með því hvernig þeir sem stýrt hafa skipulagsmálum á höfuðborgarsvæðinu um langa hríð hafa lagt alla þá steina sem fundist hafa í götu þessa verkefnis. Ætli það hafi ekki verið árið 2006 að Vegagerðin taldi að verkefnið væri nokkurn veginn að komast á þann stað að hægt væri að hefjast handa við framkvæmdirnar. Þá kom fljótlega í ljós viðspyrna Reykjavíkurborgar og þar komu m.a. fram meldingar um að byrja hinum megin, sem sagt Kjalarnesmegin, við framkvæmdir og bíða af sér óstjórn skipulagsmála í Reykjavík á þeim tímapunkti. En því miður hefur lítið áunnist hingað til og við höfum til að mynda séð það í ákvörðun Reykjavíkurborgar um að útiloka hagkvæmustu leiðina sem Vegagerðin lagði til, sem snýr að svokallaðri innri leið, með því að skipuleggja byggð sem gengur í daglegu tali undir nafninu Vogabyggð. Fyrsta mat Vegagerðarinnar var að kostnaðarauki við verkefnið vegna þeirrar ákvörðunar Reykjavíkurborgar gæti verið í námunda við 10 milljarða kr. Mér er til efs að sú tala hafi lækkað eftir því sem árin hafa liðið, mér finnst miklu líklegra að sá raunkostnaður hafi hækkað frá því að þessi ákvörðun var tekin hjá Reykjavíkurborg. Vegagerðin skrifaði Reykjavíkurborg bréf þess efnis að halda til haga heimild Vegagerðarinnar til að krefja Reykjavíkurborg um þennan viðbótarkostnað. Því hefur verið haldið fram að Reykjavíkurborg hafi svarað því bréfi og hafnað en enn hafa ekki borist neinar staðfestingar á því, hvorki frá Reykjavíkurborg né Vegagerðinni. En málið hefur allt verið þvælt og gert eins erfitt við að eiga og nokkur kostur er. Það er þessi Vogabyggð, sem svo er kölluð, og nú er þrengt að veglínu Sundabrautar á Gufunesi þar sem ný byggð er að byggjast upp og framkvæmdir hafnar við hið svokallað Þorp – vistbyggð eins og það er kallað, og er ráðgert að setja gistiskýli í veglínu Sundabrautar þannig að það verði gert að verkefni Vegagerðarinnar, þegar þar að kemur, að rýmka til þar jafn notalegt og það verkefni verður á síðari tímum.

Í þessu samhengi kom ekki beint á óvart, en samt vonar maður alltaf að staðan skáni, að það yrði meiri háttar uppákoma þegar fram komu kröfur um að sett yrði inn athugasemd um Sundabraut og skipulagsmál hennar og tengingu Sundabrautar við stofnbrautakerfið í svokölluðum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Þetta olli það miklum pirringi eða ókyrrð hjá fyrirsvarsmönnum samkomulagsins af hendi sveitarfélaganna að fresta varð undirritun samkomulagsins, viljayfirlýsingarinnar, á meðan, ef ég hef skilið það rétt, fulltrúar Reykjavíkurborgar kyngdu því að Sundabrautin yrði svo mikið sem nefnd á nafn í þessu samkomulagi eða viljayfirlýsingu.

Alltaf er þessi slagur í gangi. Það er unnið eins og mögulegt er gegn því að verkefnið Sundabraut komist á skipulag og til framkvæmda. En það er skylda okkar sem hér erum á Alþingi að tryggja að farið verði í þessa vegferð, að verkefnið komist á skipulag og til framkvæmda. Það er ekki bara öryggisatriði, komi til þess að einhvern tíma þurfi að tæma borgina með hraði, heldur mun þetta bæta umferðarflæði verulega frá öllu Vesturlandi, Norðurlandi og í raun öllum þeim svæðum sem koma að höfuðborginni úr norðri og vestri. (Forseti hringir.) Sömuleiðis mun þetta létta mjög á umferð í gegnum Mosfellsbæ og bæta flæðið og einfalda um Ártúnsbrekku.