150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[20:53]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Frú forseti. Eins ánægjulegt og það er að sjá forseta á forsetastóli þá hefði verið einkar ánægjulegt ef hún hefði tekið þátt í umræðunni með okkur þar sem hún er helsti sérfræðingur Sjálfstæðisflokksins í almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu.

Mikið hefur verið rætt um hvað borgarlína sé. Engum ber saman og um daginn var sagt að borgarlína væri það þegar búið væri að teppaleggja eða leggja borgina rauðum dreglum þannig að ofurstórir strætisvagnar gætu komist um. Ég rakst á grein eftir Hilmar Þorbjörnsson arkitekt sem ég fór yfir hér í gær ef ég man rétt. Ég ætla aðeins að ánýja það vegna þess að eitt af því sem ég sá í uppdrætti af fyrsta áfanga borgarlínu sem Reykjavíkurborg hefur gefið út, og ég treysti því að þetta sé þá rétt, er leið sem liggur frá Höfða — líklega niður Eirhöfðann, þá verður öllum bílasölum þar rutt úr vegi — niður í Vogahverfi, niður gömlu Suðurlandsbraut, niður Hverfisgötu, inn Lækjargötu og yfir Skothúsveg og þaðan áfram til suðurs yfir fyrirhugaða brú yfir Fossvog sem einu sinni átti að vera fyrir hjól og gangandi, um tvær 60 ára gamlar húsagötur í Kópavogi, Borgarholtsbraut og Digranesveg að Smáralind hér um bil. Það eru 13 km, frú forseti, og farartækið, hvert sem það verður, á að stoppa 25 sinnum á leiðinni. Nú hef ég skilið það þannig að þessi framkvæmd sé til að flýta för fólks sem vill tileinka sér þennan ferðamáta. Nú hef ég reyndar ekki gert á því vísindalega tilraun hvað maður er lengi að keyra frá Höfða þessa leið, að vísu getur maður ekki keyrt yfir Fossvoginn en maður getur keyrt að honum og haldið svo áfram hinum megin frá. Með því að stoppa 25 sinnum á leiðinni á 13 km telst mér til að þá sé verið að stöðva á 500 m bili.

Nú hefur mér skilist að borgarlína sé sem sagt ofurstrætisvagn, líklega tvöfalt lengri en þeir sem við erum að nota í dag, af því að fallið hefur verið frá lestarteinunum, held ég, í bili alla vega. Ég velti því enn fyrir mér, frú forseti, í fyrsta lagi, hvernig á að leggja rauðan dregil fyrir strætó niður Hverfisgötu? Á að taka af aðra gangstéttina? Og hvað á að gera við allt fólkið sem er búið að fjárfesta í íbúðum við Hverfisgötuna, margt af því barnafólk, ef svona vagnar, sem eru væntanlega 50 tonn að þyngd og kannski 18 m langir, fara um þessa götu, ef þetta á að vera svona fljótt í förum, eigum við þá ekki að segja á tíu mínútna fresti, eitthvað svoleiðis? Ég spyr mig eiginlega: Hvernig mun Hverfisgatan líta út? Nú er búið að byggja báðum megin við hana. Þarna verður hávaði sem skellur á milli og bergmálar. Ég velti því fyrir mér: Hafa menn virkilega úthugsað þetta? Hafa menn virkilega úthugsað það hvort strætisvagn sem er 18 m langur og 50 tonn getur yfirleitt tekið beygju af Hverfisgötu inn á Lækjargötu og af Lækjargötu inn á Skothúsveg? Þolir brúin yfir Tjörnina þann þunga? Eða þarf að breikka brúna og fara út í Tjörnina báðum megin? Þetta eru spurningar sem við tökum kannski fyrir þegar opinbera hlutafélagið kemur hingað til umræðu. (Forseti hringir.) En ég sé því miður að tími minn er búinn þannig að ég verð þá að halda áfram við það sem ég ætlaði að tala um (Forseti hringir.) í næstu ræðu og bið forseta um að setja mig á mælendaskrá að nýju.