150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[20:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Mig langar að byrja á svipuðum slóðum og hv. þm. Bergþór Ólason endaði þegar hann fór að ræða Sundabraut og þær tafir sem hafa orðið á því verkefni og þeirri staðreynd að meiri hluti Reykjavíkurborgar undanfarin ár hefur gert hvað hann getur til að leggja stein í götu Sundabrautar. Þingmaðurinn fór ágætlega yfir skipulagsmál og uppbyggingu í Vogabyggð svokallaðri og það var áhugavert að heyra þingmanninn rifja upp þá fyrirvara sem Vegagerðin hafði á þeim framkvæmdum um að Reykjavíkurborg kynni að verða skaðabótaskyld eða þyrfti að greiða Vegagerðinni háar upphæðir vegna þessa.

Hv. þingmaður nefndi hér að kostnaðaraukinn sem þegar væri orðinn næmi a.m.k. 10 milljörðum, ef ég tók rétt eftir, hef smáfyrirvara á því. Á sama tíma virðist þessi sama borg og meiri hlutinn ætla sér að fara í tugmilljarða verkefni um leið og vofir yfir þeim reikningur frá ríkisvaldinu. Ég leyfi mér að segja það, frú forseti, að það kemur ekki til greina að borgin verði ekki krafin um þær fjárhæðir eða látin standa skil á þeim gjörðum sínum ef hún hefur með leyfisveitingum eða framkvæmdum aukið kostnað ríkissjóðs við vegagerð, þar með talið þessa ágætu Sundabraut.

Nýjasta dæmið sem hv. þm. Bergþór Ólason fór yfir voru framkvæmdir sem eru hafnar eða eru fyrirhugaðar í Gufunesi þar sem beinlínis er búið að skipuleggja byggð ofan í vegstæðið eða hluta af byggðinni ofan í vegstæðið. Það er því erfitt að sjá hvers vegna ríkið ætti að halda áfram í skipulagningu á framkvæmdum varðandi borgarlínu meðan Reykjavíkurborg hagar sér eins og hún gerir eða í það minnsta ekki fyrr en búið er að fá á hreint veglínu og öll leyfi og annað sem þarf varðandi Sundabraut sem og þau mislægu gatnamót sem nauðsynleg eru. Það er aðeins farið yfir það í gögnum málsins og í ágætri ræðu sem oft hefur verið vitnað til hér undanfarið, ræðu 1. þm. Reykv. s., Sigríðar Á. Andersen, sem fór einmitt yfir þá forgangsröðun Reykjavíkurborgar að leggja á framkvæmdastopp, reyndar ekki bara Reykjavíkurborg, það tóku fleiri þátt í því en borgin var aðalleikarinn að sjálfsögðu. Þetta framkvæmdastopp hefur gert það að verkum að höfuðborgarbúar eða íbúar á höfuðborgarsvæðinu, ætla ég að leyfa mér að segja, vegna þess að samgöngubætur innan höfuðborgarinnar gagnast nágrannasveitarfélögunum líka, hafa orðið af samgöngubótum vegna þessarar ákvörðunar. Milljarðar hafa flætt inn í strætisvagnareksturinn án þess að það hafi skilað miklu.

Ég held að mjög mikilvægt sé að þingmenn leggi áherslu á það í þeim samningum sem kunna að vera fram undan, í þeim afgreiðslum sem kunna að vera fram undan í málum tengdum samgönguáætlun og verkefnum henni tengdri, að Reykjavíkurborg komist ekki undan þeim skyldum sem henni eru faldar, þ.e. að greiða fyrir annarri umferð. Þótt lítil áhersla sé nú lögð á það í tillögum meiri hlutans er samt mikilvægt að halda borginni við efnið í því öllu saman. Það er líka mjög mikilvægt að Reykjavíkurborg komist ekki upp með það óáreitt að halda áfram að þrengja að flugvellinum. Um það er samkomulag að flugvöllurinn eigi að vera þarna um óákveðinn tíma, í rauninni, og mikilvægt að það sé virt í alla staði. Nýjustu æfingar Reykjavíkurborgar varðandi skipulagsmál eru ekki til þess að auka trúna á því. Þar af leiðandi undrast maður mjög að ekki skuli látið sverfa aðeins meira til stáls gagnvart borginni. Trúlega er það vegna þess að ríkisstjórnin er samansett úr þremur flokkum þar sem einn af flokkunum á mikilla hagsmuna að gæta í borgarmálunum og það flækir vitanlega stöðuna. En það réttlætir samt ekki aðgerðaleysið.