150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[21:09]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Mig langar að vitna hér í umsögn frá Landssambandi hestamanna. Hesturinn þarf jú reiðvegi. Þó að hann geti ýmislegt fer betur á því að hann hafi góða reiðvegi. En hér segir, með leyfi forseta:

„Hestamenn telja ekki nægjanlegt fjármagn lagt til þessa málaflokks hvað varðar uppbyggingu og viðhald reiðvega, sem er undirstaða hestamennsku og hestatengdrar ferðaþjónustu í landinu.

Undanfarin ár hafa umsóknir hestamannafélaganna í reiðvegafé árlega numið á bilinu 280–330 [milljónum] króna. Þá bæði til nýbygginga og viðhalds eldri reiðvega. Árið 2002 voru 39,9 milljónir króna til reiðvega á vegaáætlun, árið 2009 er reiðvegafé orðið 70 milljónir króna og hafði þá tekið mið af verðlagsþróunum. Árið 2010 er reiðvegafé skorið niður í 60 milljónir króna og er óbreytt til ársins 2019 að það hækkaði í 75 milljónir króna. Grunnur byggingavísitölu breytist árið 2010 og er settur á 100, um áramót 2018–2019 er grunnur vísitölunnar orðinn 142,1. Reiðvegafé hefði því átt að vera 107,6 milljónir króna 2019 hefði það fylgt verðlagsþróunum. Í raun hafa engar hækkanir verið til þessa málaflokks frá árinu 2009, heldur skerðist framlag ríkisins hlutfallslega.

Hestamenn vekja athygli á þeim gríðarlegu fjármunum sem hestatengd starfsemi er að skapa þjóðarbúinu á ársgrundvelli, sem eftirfarandi dæmi sýna.

Árið 2001 voru gjaldeyristekjur af hestamennsku 7,5 milljarðar […] Árið 2001 sóttu um 280 þús. erlendir ferðamenn landið heim, talið er að um 14% hafi sótt afþreyingu í íslenska hestinn að sumarlagi og um 8% að vetrarlagi […] 2019 er áætlað að rúmlega tvær milljónir erlendra ferðamanna sæki landið heim.“ Og því er álagið orðið meira á þessum vettvangi.

„Rétt er að hafa í huga að fjölþætt starfsemi önnur en hestaleigur og hestaferðir [getur] talist til hestatengdrar ferðaþjónustu. Má þar nefna hestatengda viðburði. Þar ber hæst Landsmót hestamanna sem haldið er annað hvert ár og er gestafjöldi 8–10 þúsund. Um þriðjungur gestafjöldans eru erlendir gestir. Varlega áætlað er talið að meðaleyðsla gesta á dag á Landsmóti hestamanna 2016 fyrir utan gistingu hafi verið 30.041 krónur. Erlendir gestir eyddu að meðaltali 34.955 krónum á dag en Íslendingar 26.706 krónum. Varlega áætlað hefur því verið áætlað að efnahagsleg áhrif Landsmóts hestamanna 2016 hafi verið um 160 milljónir króna án afleiddra áhrifa. […]

Reiðstígar hafa orðið hér út undan og þarf að tvöfalda framlög til þeirra hið minnsta frá því sem nú er. Hestamenn skora á Alþingi að bæta úr og auka verulega framlög til reiðvega og að nefndarmenn [umhverfis-] og samgöngunefndar Alþingis beiti sér til að svo verði.“

Hæstvirtur forseti. Íslenski hesturinn var kallaður þarfasti þjónninn um aldir. Í dag þjónar hann nýju hlutverki sem er við ferðamennsku, útflutning á hrossum og annað slíkt. Við þurfum að gera íslenska hestinum hátt undir höfði. Hann hefur þjónað okkur um aldir. Það má nefna að hesturinn er merki Miðflokksins sem sýnir kraft og atorku. Því erum við í Miðflokknum mjög áfram um það að hestinum sé gert hátt undir höfði og reiðvegir séu þar af leiðandi lagaðir.