150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[21:24]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Frú forseti. Ég hef verið að fjalla aðeins um fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar og þá staðreynd að Reykjavíkurborg hefur eins og önnur sveitarfélög farið afar illa út úr veirufaraldrinum. Reykjavíkurborg hefur leitað á náðir ríkissjóðs með beiðni um óendurkræfan styrk vegna slæmrar fjárhagsstöðu en á sama tíma ætlar sú sama borg, Reykjavíkurborg, að fara að reisa borgarlínu fyrir tugi milljarða, verkefni upp á um það bil 200 milljarða. Maður spyr: Hvernig er þetta hægt? Hvernig getur sveitarfélag sem stendur svona illa, og hefur skiljanlega orðið fyrir áföllum vegna veirufaraldursins, farið út í svo kostnaðarsamt verkefni? Auk þess má benda á umsögn sem Reykjavíkurborg sendi til fjárlaganefndar við umræður um fjáraukalög. Þar er því lýst að það stefni í algerlega ósjálfbæran rekstur til margra ára. Það er verið að tala um fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar. Hér er sagt, með leyfi forseta:

„Þessa ósjálfbærni er ekki hægt að leysa með hækkun leyfilegrar skattlagningar eða þjónustugjalda eða með stórfelldum niðurskurði í útgjöldum borgarinnar sem varða að langmestu leyti leik- og grunnskóla og velferðarþjónustu. Hefðbundnar aðferðir eru ekki í boði. Þá er ekki hægt að leysa þetta með stórfelldum lánveitingum þar sem veltufé frá rekstri mun ekki til margra ára fram undan standa undir afborgunum.“

Reykjavíkurborg er að lýsa því hér yfir að veltufé frá rekstri muni ekki til margra ára fram undan standa undir afborgunum. Þetta eru mjög váleg tíðindi hvað fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar varðar. Og svo segir í umsögninni:

„Þetta eru meginrökin fyrir því að ríkið komi með beinan óendurkræfan stuðning til sveitarfélaganna sem tryggir að þau geti staðið undir þjónustuskyldum sínum við íbúana og heimilin.“

Reykjavíkurborg er með öðrum orðum að fara fram á fjárhagsstuðning frá ríkissjóði á sama tíma og ætlunin er að fara í verkefnið borgarlínu upp á tugi milljarða króna.

Ég hef rakið þetta í ræðu minni hér á undan, frú forseti. Ég verð að segja að ég er hálfgáttaður yfir því að Reykjavíkurborg ætli sér að fara í þessa framkvæmd miðað við það hvernig fjárhagsstaða borgarinnar er. Eins og ég sagði hér áðan fer borgin svo fram á fjárhagsstuðning frá ríkissjóði vegna veirufaraldursins. Það sama er upp á teningnum hjá nágrannasveitarfélögunum sem standa að þessu verkefni með ríkissjóði eða ætla að gera það. Öll hafa þau sveitarfélög orðið fyrir fjárhagslegu áfalli vegna veirufaraldursins.

Það er fullkomið ábyrgðarleysi, frú forseti, að ætla sér síðan að fara í framkvæmdir upp á tugi milljarða í verkefni sem þjónar kannski 4% til 5% borgarbúa, strætisvagnaferðir. Maður skilur ekki hvert menn eru komnir þegar kemur að fjárhag, útgjöldum, Reykjavíkurborgar og sveitarfélaganna í kring. Þegar menn eiga ekki einu sinni fyrir lögbundnum verkefnum á að fara í eitthvert gæluverkefni borgarstjórnarmeirihlutans, með Samfylkinguna og borgarstjóra í fararbroddi, til að stjórna því hvernig samgöngur eigi að vera, til þess að neyða borgarbúa til að ferðast með strætisvögnum. Framkvæmdin kemur til með að bitna á samgöngumannvirkjum sem eru nú þegar fyrir og þeim sem aka bifreiðum og fjölskyldubílnum, það verður minnkað það umferðarmagn sem tilheyrir fjölskyldubílnum til að koma þessari borgarlínu fyrir.

Allt er þetta gert undir þeim merkjum að þetta sé nauðsynlegt til að bæta umferðarflæðið og leysa umferðarhnúta sem hafa myndast. Hvers vegna hafa þeir myndast, frú forseti? Það er ósköp einfalt. Reykjavíkurborg hefur ekki staðið í neinum framkvæmdum til að greiða fyrir núverandi umferð hvað varðar stofnbrautir, byggingu mislægra gatnamóta o.s.frv. Það snýst nefnilega allt um borgarlínu sem borgin hefur síðan ekki efni á að byggja.