150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[21:30]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Ég var byrjaður að tala um þá ólánsömu stöðu sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, önnur en Reykjavík, þ.e. nágrannasveitarfélög Reykjavíkur, hafa verið sett í samgöngu- og skipulagsmálum, og auðvitað er þetta nátengt, samgöngu- og skipulagsmálin. Nema hvað, nú á að greiða lausnargjaldið til að ráðist verði í löngu tímabærar framkvæmdir, svona u.þ.b. kannski ein stór framkvæmd í hverju sveitarfélagi. Fyrir vikið sætta þau sig við borgarlínuna, enda er ríkið að bjóðast til að fjármagna megnið af henni.

En hvaða framkvæmdir eru þarna undir og hversu mikil flýting er í þessu fólgin? Byrjum á seinni liðnum. Því hefur verið haldið fram að með þeim samgöngusáttmála sem vísað er til í samgönguáætlun muni ekki taka nema 15 ár að klára verkefnið sem ella hefði tekið 50 ár. Og hvað eru menn að miða við þegar þeir segja að það hefði tekið 50 ár að klára þetta? Jú, þeir eru að miða við framkvæmdastoppið þau tíu ár þegar ekkert var að gerast. Þetta er í rauninni eins og að segja: Nú ætlum við að gera á 15 árum það sem hefði tekið 50 ár að gera ef við hefðum viðhaldið framkvæmdastoppi. Þetta er náttúrlega bara auglýsingamennska. En að mönnum skuli detta í hug að hægt sé að slá ryki í augun á fólki með þessum hætti er afskaplega sérkennilegt. Hvaða verkefni eru þetta? Það er umferðarstýring og þar er talað um ljósakerfið. Ég hef rætt þetta áður, frú forseti, og ætla því ekki að fara nánar út í það að sinni. En hér rekst hvað á annars horn því að á sama tíma er verið að tala um, með innleiðingu borgarlínu, að rugla algerlega í ljósastýringarkerfi borgarinnar þannig að þetta er bara marklaust tal um umferðarstýringu ef menn ætla að fara í borgarlínuna samhliða.

Sæbrautarstokkur, Reykjanesbraut, Sæbraut, Holtavegur, Stekkjarbakki. Hvað kemur svo næst um þetta? Tengist fyrsta áfanga borgarlínu yfir Elliðavog. Gat nú verið. Þarna er verið að ráðast í mannvirki sem eiga að tengjast borgarlínu og álitamál hvort menn flokka kostnaðinn við borgarlínuna eða telja það til tekna með öðrum framkvæmdum. Miklabraut, stokkur við Snorrabraut, liður í að tengja Landspítala við borgarlínu. Meira að segja hin verkefnin sem áttu að fylgja borgarlínunni tengjast öll meira og minna borgarlínu. Arnarnesvegur, Rjúpnavegur og Breiðholtsbraut, þetta er löngu tímabær framkvæmd sem hefði átt að ráðast í algerlega án tillits til borgarlínu. Svo borgarlína; Hamraborg, Lindir, sá áfangi, gatnamót við Bústaðaveg. Þetta er framkvæmd sem vakti einmitt athygli fyrir ekki svo löngu. Hv. þm. Bergþór Ólason spurði m.a. hæstv. samgönguráðherra út í þetta, en það hefur nefnilega komið á daginn að Reykjavíkurborg eða meiri hlutinn þar hefur allt aðrar hugmyndir um þau gatnamót en ríkið og til að mynda hæstv. fjármálaráðherra. Þannig að jafnvel varðandi aðalframkvæmdina innan Reykjavíkur til viðbótar við borgarlínuna ætlar borgin ekki, að því er virðist, að standa við það að fara hagkvæmustu leiðina.

Það má telja upp nokkur verkefni í viðbót, ég mun gera það, frú forseti, þegar tími gefst til. Ég vildi bara benda á það hversu fráleitt það er að á sama tíma og verið er að fara í allt þetta þá liggi ekki fyrir rekstraráætlun fyrir borgarlínuna. Hvaða stjórnendum fyrirtækja dytti það í hug að ráðast í tugmilljarða eða jafnvel hundruð milljarða framkvæmdir án þess að leggja fram rekstraráætlun eða gera slíka áætlun? Ég held að við verðum að fara að leita að þessari rekstraráætlun. Hún hlýtur að vera til einhvers staðar, frú forseti, þó að menn séu að reyna að fela hana.

Í umræðu um þriðja orkupakkann leituðum við mikið að fyrirvörunum og þaulreyndur rannsóknarmaður, lögreglumaður, sýslumaður, Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, fékk það verkefni að stýra leitinni að fyrirvörunum. Nú hvet ég hv. þingmann til að hefja leitina að rekstraráætluninni því að það getur ekki verið að menn ætli í hundruð milljarða framkvæmd án þess að til sé rekstraráætlun einhvers staðar í skúffu þó að verið sé að fela hana.