150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[21:35]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Frú forseti. Ég hef verið í dálítinn tíma hugsi yfir því að ríkisstjórnin er fús til að láta 50 milljarða af hendi rakna til svokallaðrar borgarlínu þótt óljóst sé hvað felst í þeirri framkvæmd. Þegar maður hugsar þetta mál aðeins dýpra þá er ríkissjóður með þessu í raun og veru að taka að sér hlutverk vogunarsjóðs, með því að taka þátt í áhættufjárfestingu af þessari stærð. Eins og fram hefur komið í máli annarra Miðflokksmanna þá liggur rekstraráætlun ekki fyrir. Það virðist ekki vera neitt tekjumódel. Það er sagt að stefnt sé að því að svo og svo há prósenta af íbúum á svæðinu muni nýta sér þessa þjónustu. Ég lýsti þeirri þjónustu áðan, þ.e. í fyrstu útgáfunni, frá Höfða og suður í Kópavog, eru 13 km og verður stoppað á 26 stöðum. Það er ekki ávísun á fljótar ferðir. Ég man eftir því að þegar ég var ungur drengur og var að þvælast hér í Reykjavík þá var ein strætisvagnaleið sem var fljótari en aðrar, það var leið nr. 13, Kleppur hraðferð. Stoppaði sjaldan en fór mjög hratt yfir. Nú er Reykjavíkurborg að reyna að búa til 2020 módelið af Klepp hraðferð, en hún á að stoppa á 26 stöðum á 13 km kafla.

Ég segi aftur, frú forseti: Þetta er ekki hraðferð, en í þetta og áframhaldandi ævintýri er ríkið viljugt að láta af hendi rakna 50 milljarða sem fjármagnast af því að selja bestu lóð á höfuðborgarsvæðinu núorðið, eftir að tíu mánaða fjármálaráðherra Viðreisnar seldi Vífilsstaðalandið og veðurstofulóðina. Eitt mesta ógagn sem hefur verið gert, ég hugsa að enginn maður hafi gert jafn mikið ógagn að þessu leyti á jafn stuttum tíma og þessi ágæti heiðursmaður. Nú á að fara að bæta um betur með því að láta Keldnalandið líka með öllu, með skipulagsframkvæmdum og öllu. Og ekki nóg með það, þar kemur rauði dregillinn sem hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir, sitjandi forseti, minntist á um daginn. Það á nefnilega að plægja einn rauðan dregil ofan í mitt Keldnalandið fyrir borgarlínu. Það er ekki verið að nota sér eða prjóna við þau samgöngumannvirki sem eru til staðar, nei, það á að plægja þetta niður í Keldnalandið mitt. Síðan halda menn áfram og fara í mitt Blikastaðalandið, sem er úrvalsbyggingarland. En það verður ekki bætt í Vesturlandsveginn eða neitt slíkt, alls ekki.

Þetta er allt saman þannig vaxið að maður hefði haldið að ríkið gerði meiri kröfur þegar það lætur af hendi peninga af þessari stærðargráðu. Má ég minna á að þetta er líklega rúmur helmingur af upphaflegri áætlun um byggingu nýs Landspítala. En menn eru reiðubúnir að láta þetta af hendi til að fjölga þeim sem eiga að fara með almenningsfarartækjum. Þessi upphæð gæti rekið Ríkisútvarpið í átta til níu ár, líklega, en menn eru samt á því að gera þetta og leggja þessa peninga til og breyta ríkissjóði í vogunarsjóð. Mér er það algerlega hulið hvernig menn ætla að geta varið þetta miðað við að það liggja ekki fyrir meiri upplýsingar en raun ber vitni.

Ég ætlaði að fjalla aðeins um legu borgarlínu númer eitt en því miður (Forseti hringir.) hefur mér ekki enst tími til þess og verð því að biðja forseta að skrá mig aftur á mælendaskrá.