150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[21:40]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég er enn þá með plaggið, samgönguáætlun, þar sem fjallað er um almenningssamgöngur á milli byggða og er komin að þeirri framtíðarsýn sem fjallar um að Ísland verði í fremstu röð með trausta innviði, öflug sveitarfélög, verðmætasköpun og framsækna þjónustu. Í samgönguáætluninni kemur fram framtíðarsýn og tvö meginmarkmið sem hafa verið sett yfir alla málaflokka samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og er hluti af því að samþætta þær áætlanir. Með framtíðarsýn um almenningssamgöngur er komin heildstæð sýn á það hvernig almenningssamgöngukerfið geti þjónað og tengt byggðir, stutt við atvinnu og skólasókn, auðveldað aðgengi að opinberri þjónustu í nærumhverfi sem og að miðlægri þjónustu sem er að finna á höfuðborgarsvæðinu.

Hér er það neglt niður að miðlæg þjónusta sé einna helst á höfuðborgarsvæðinu og ég geri mér grein fyrir því að það getur tekið töluverðan tíma að snúa við þessu skipi þannig að við látum það liggja á milli hluta. Það er alveg ljóst að samgöngur hafa mjög mikil áhrif á þróun byggðar og hvernig atvinnumál þróast á landinu og rannsóknir hafa sýnt fram á að þetta helst í hendur, þ.e. þróun byggðar og hvernig samgöngukerfi þróast. Þetta hefur auðvitað allt saman áhrif hvert á annað.

Í þessu samhengi vil ég rifja upp gagnrýni á skosku leiðina um að með því að niðurgreiða flugferðir þannig að fólk sæki sér þjónustu til höfuðborgarinnar sé þar með hugsanlega verið að hafa áhrif á byggðaþróun og grunnþjónustu. Það sé ekki eins mikill hvati til þess að halda grunnþjónustunni í heimabyggð. Það er mikilvægt að líta á allt samgöngukerfið sem eina heild sem er auðvitað vegakerfið, hafnir og flugvellir og þess vegna verður að horfa á þetta allt saman. Ég minntist á það hér fyrr að það er ekki aðeins fengur í því að horfa á fleiri gáttir til landsins, það verður líka að hugsa sér að hagkvæmt sé að horfa á gáttir frá landinu. Það hlýtur að skipta máli líka. Við viljum ekki bara hafa eina gátt inn í landið eða út úr landinu.

Samgöngur snerta okkur á hverjum einasta degi og þess vegna skipta ákvarðanir stjórnvalda mjög miklu máli. Það má segja að kórónuveirufaraldurinn hafi kennt okkur margt. Við sátum fundi í gegnum fjarfundabúnað og störf voru unnin í fjarvinnu. Það segir okkur að mögulegt er að spýta svolítið í hvað varðar störf án staðsetningar og það hefði maður viljað sjá kannski sett ákveðnar fram hér, en ég er svo sem bara rétt að byrja á þessu plaggi þannig að kannski á það eftir að koma.

Í fyrsta lagi er hér fjallað um að þjónusta samgöngu- og fjarskiptakerfa mæti þörfum samfélagsins. Það er tekið til að samgöngu- og fjarskiptakerfi eigi að mynda samþætta heild, og það er auðvitað til hagsbóta fyrir bæði einstaklinga og atvinnulífið, og að grunnnet samgangna og fjarskipta á landi, í lofti og á sjó sé skilgreint og byggt upp m.a. af öryggi, vinnusóknarsvæðum, tengingu landshluta og tengingu Íslands við hinn stóra heim.

Ég læt þetta duga og bið forseta að setja mig vinsamlegast aftur á mælendaskrá.